TM hf. eignast Lykill fjármögnun hf.

Þann, 7. janúar 2020, var lokið við kaup TM á Lykli með greiðslu kaupverðsins, að undanskildu því sem nemur hagnaði Lykils árið 2019 og Lykill því orðinn hluti af samstæðu TM.

Kaupin á Lykli eru í samræmi við stefnu TM og eftirleiðis mun starfsemi félagsins skiptast í þrjár jafn mikilvægar stoðir, vátryggingar, fjármögnun og fjárfestingar. Fjölmörg tækifæri felast í kaupunum til að bæta arðsemi, ná fram samlegðaráhrifum í tekjum og kostnaði, fjölga fjármögnunarkostum, lækka fjármagnskostnað og gera fjármagnsskipan hagkvæmari.

Starfsemi Lykils verður á næstu vikum færð í höfuðstöðvar TM að Síðumúla 24 og stefnt er að því að öll starfsemi verði komin þangað í febrúar.

Lilja Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Lykils:
„Lykill er sterkt félag sem á sér langa sögu á íslenskum fjármálamarkaði. Við fögnum að söluferli félagsins sé nú farsællega lokið og að það hafi eignast traustan framtíðareiganda. Fram undan eru spennandi tímar með ótal tækifærum. Með kaupunum hefur verið skotið enn styrkari stoðum undir starfsemi félagsins og við starfsfólk Lykils erum full tilhlökkunar að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem bíða okkar við að byggja upp öfluga samstæðu á sviði fjármála- og vátryggingarþjónustu“.