Það getur verið erfitt að þrífa framrúðuna almennilega, því oft safnast þar ýmis fita og efnasambönd sem ekki er auðvelt að losna við. Þó er mikilvægt að hreinsa hana, sérstaklega á haustin þegar sól tekur að lækka á lofti og meiri hætta er á að hún trufli mann við aksturinn. Hér eru nokkur góð ráð. 

Eflaust taka margir ökumenn eftir því að á haustin virðist framrúðan skítugri að innan en venjulega. Ástæða þess getur verið sú, að innviðir bílsins og þá sérstaklega mælaborð eru að miklu leyti úr plasti. Plast er m.a. framleitt úr olíu og á sumrin, þegar sólin skín og það verður mjög heitt inni í bílnum, losna efnasambönd úr plastinu, gufa upp og setjast innan á rúðuna. Við verðum vör við þetta ef við rennum fingri eftir rúðunni og sjáum að það skilur eftir sig far. Einnig geta ýmis hreinsiefni sem við notum til að þrífa bílinn að innan skilið eftir sig skán á rúðunni, svo ekki sé nú minnst á ef reykt er í bílnum, því það er ekki bara óhollt heldur líka slæmt fyrir bílinn, lykt sest í sætisklæði og reykurinn getur skilið eftir sig óhreinindi á rúðunum.

Svona þrífur þú framrúðuna

Þessi óhreinindi geta truflað okkur við akstur, vegna þess að ljós getur orðið ýktara og brotnað með öðrum hætti í rúðunni en ef hún væri hrein. Þess vegna er mikilvægt að þrífa framrúðuna vel. Áður en þú þrífur framrúðuna að innan, gættu þess að þrífa hana vel að utan, þannig að þú sjáir vel óhreinindin sem eru á henni að innanverðu.

Til eru fjölmörg góð hreinsiefni fyrir rúður, sem eru fáanleg á flestum bensínstöðvum. Gott er að nota míkrófíber tuskur og þegar þú hefur skolað rúðuna, úðarðu jöfnu lagi af hreinsiefni á hana. Síðan notarðu klútinn til að þrífa rúðuna. Gott er að nudda í hringi og skipta um átt reglulega. Mundu að lesa vel leiðbeiningarnar sem fylgja hreinsiefninu fyrir notkun.

Næst er að skola rúðuna vel með heitu vatni, það er betra að nota heitt vatn enda losar það frekar um óhreinindi en kalt vatn. Þá getur verið gott, ef þú átt bón leir, eða Clay Bar, að nota hann á rúðuna. Leirinn dregur í sig óhreinindi sem hreinsiefnið nær ekki. Ekki er sniðugt að nota hluti sem geta skilið eftir sig rákir eða fína skurði í glerinu, hluti á borð við rakvélablöð eða þess háttar. Leirinn skaðar ekki rúðuna og hentar mjög vel til að hreinsa hana.

Þar sem leirinn losar mjög um óhreinindi á rúðunni er gott að taka aðra umferð með hreinsiefninu og míkrófíberklútnum eftir að þú hefur farið yfir rúðuna með leirnum. Næst þurrkarðu hana vel og vandlega, helst með öðrum míkrófíber klúti sem drekkur í sig vatn.

Hér er síðan smá ráð fyrir þá sem vilja fá algjörlega fullkomna framrúðu. Það er hægt að nota efni á borð við Rain-X til að gera rúðuna enn hreinni, en besta ráðið er samt að bóna hana með bílavaxi! Já, taka fram vaxið og bera þunnt lag vel og vandlega á rúðuna. Bæði er auðveldara að hreinsa fugladrit og skordýr af rúðunni, og hrindir hún betur frá sér óhreinindum, vatni og það er léttara að skafa af henni þegar það tekur að frysta.

Þrífa framrúðuna að innan

Þegar framrúðan er orðin skínandi hrein að utan er kominn tími til að taka hana jafn vel í gegn að innan. Til að byrja með notum við þurran og hreinan míkrófíber klút og þrífum hana vel. Það getur verið erfitt að komast vel að, þar sem rúðan og mælaborðið mætast, það er þó mikilvægt að ná til allrar rúðunnar og þrífa hana vel með klútinum. Gott er að nudda bæði í hringi sem og upp og niður með rúðunni.

Næsta skref er að ná fitunni af rúðunni. Það er bæði hægt að nota hreinsiefni á borð við Mr. Clean Magic Eraser, sem og að setja spritt í hreinan klút og nudda rúðuna. Gættu þó að því, að ekki leki vökvi á mælaborðið og vertu með pappírsþurrkur við höndina. Nuddaðu rúðuna vel og vandlega. Næst tekurðu fram míkrófíber klútinn og þurrkar rúðuna, mundu að nudda hana fyrst í hringi og svo upp og niður. Ekki láta vökvann, hvort heldur sem er úr Magic Eraser eða sprittið, þorna á rúðunni.

Að lokum notarðu sama hreinsiefni og þú notaðir utan á rúðuna. Ekki úða beint á rúðuna, sprautaðu heldur í klút eða þurrki og berðu þannig hreinsiefnið á hana. Þannig kemstu hjá því að að hreinsiefnið leki á mælaborðið. Svo notarðu sömu aðferð og áður og nuddar rúðuna, fyrst í hringi og svo upp og niður.

Að þessu loknu ætti framrúðan að vera orðin laus við fitu og óhreinindi.