Veturinn er kominn í öllu sínu veldi og mun eflaust ekki sýna á sér mikið fararsnið fyrr en næsta vor. Við megum því eiga von á því á hverjum morgni að þurfa að skafa af bílnum. Öryggisins vegna er betra að gefa sér tíma til að skafa almennilega.

„Það snjóar úr ljósastaurunum,“ sagði einn 4 ára þegar hann mætti út snemma morguns núna í vikunni með foreldrum sínum á leið í leikskólann. Bragð er að þá barnið finnur, segir máltækið. Á morgnana er oft ansi dimmt og við höfum þurft oftar en ekki að skafa af bílunum undanfarna daga enda verið nokkur ofankoma. Við þurfum hins vegar að gæta vel að því hvernig það er gert, og flýta okkur hægt, þó að það geti verið ansi kalt.

Góð skafa flýtir fyrir

Það getur margborgað sig að kaupa góða sköfu, þá helst sköfu sem er bæði með kústi á öðrum endanum og ágætlega löngu skafti, þannig að við þurfum ekki að teygja okkur eða leggjast mikið utan í bílinn. Þar sem hitastig getur oft sveiflast í kringum frostmarkið þá hættir snjóinn oft til að frjósa og mynda klaka og hrímhúð á rúðum. Því getur verið gott að vera með sköfu sem er hörð og sterk, þannig að við getum beitt henni vel.

Það þarf að skafa af öllum rúðum

Því miður sér maður af og til einstaklinga í umferðinni sem hafa ekki nennt að skafa af öllum rúðum, heldur rétt aðeins af framrúðunni og jafnvel smá af rúðunni bílstjóramegin. Það kann ekki góðru lukku að stýra að gefa sér ekki tíma til að skafa af öllum rúðum, því við verðum að sjá vel til allra átta þegar við erum í umferðinni. Þá þarf líka að skafa snjó frá hliðarspeglum, fræði fram- og afturljósum sem og ganga úr skugga um að snjór byrgi hvergi sýn úr bílnum.

Sópum snjónum af bílnum

Á flestum góðum sköfum er einnig sópur. Hann notum við til að sópa snjó af húddi og þaki. Eflaust hafa margir lent í því að vera að aka fyrir aftan bíl sem er með mikinn snjó á þaki og fá eitthvað af honum yfir framrúðuna. Ein vindhviða og allt fargið getur losnað og farið af stað. Manni getur krossbrugðið og það skapað hættu. Eins getur snjór af húddi losnað og fokið yfir framrúðuna, sem kemur í veg fyrir að maður sjái vel fram fyrir bílinn um stundarsakir. Slys hafa orðið við minni tilefni.

Leyfum bílnum að hitna

Oft getur myndast móða innan á rúðum á veturna. Stundum frýs hún og þá getur tekið ansi drjúgan tíma fyrir miðstöðina í bílnum að vinna á henni. Það er þó mikilvægt að leyfa miðstöðinni að gera það og leggja ekki af stað þegar maður er aðeins með takmarkaða sýn út um framrúðuna. Ef þú lendir í viðvarandi raka þá eru til frábær ráð til að ná raka úr bílum.

Ekki freistast til að kveikja strax á rúðuþurrkunum

Ef rúðuþurrkurnar eru frosnar fastar þá getur mótorinn ásamt þurrkunum skemmst eða ef heppnin er með þér þá spryngur „bara“ öryggi en þá hættir líka oft annar búnaður að virka í bílnum.

Málið er vakna tímanlega hella upp á gott kaffi, fara í góð föt og gefa sér tíma í að skafa og hita bílinn. Mundu eftir að skafa allar rúður og ljósin. Stökktu svo inn fáðu þér rjúkandi og ilmandi gott kaffi með morgunmat.

Flýtum okkur hægt, gefum okkur tíma til að hugsa vel um bílinn. Öryggi í umferðinni er sameiginlegt verkefni okkar allra.