Raki getur verið hvimleitt vandamál í bíl, sérstaklega hérlendis þar sem mikill munur getur verið á hitastigi inni í bílnum og fyrir utan hann. Það eru, ef svo mætti að orði komast, kjöraðstæður fyrir raka að myndast inni á rúðum. Það eru til nokkrar leiðir til að losna við raka og koma í veg fyrir að hann myndist.

Hvað veldur rakamyndum í bíl?

Þegar mikill munur er á lofthita og raka annars vegar inni í bíl og fyrir utan hann er nokkur hætta á að móða myndist á rúðum. Við verðum vör við þetta bæði á mjög köldum dögum sem og mjög heitum. Þegar raki kemst í snertingu við kalda rúðuna þéttist hann, myndar dropa og móðu sem sest á rúður og getur dregið úr útsýn okkar. Eðli málsins samkvæmt er það að lokum öryggisatriði, við þurfum að hafa óskerta sýn úr bílnum.

Við myndum alltaf raka í bíl, andardráttur okkar og líkamshiti er nóg til þess að mynda raka inni í bílnum. Allir nýir bílar, eins og þeir sem þú finnur í Sýningarsalnum okkar, eru búnir öflugri miðstöð sem vinnur gegn þess háttar rakamyndun.

Hér kemur samt meira til. Við tökum oft með okkur blauta hluti inn í bíl, t.d. regnhlífar eða yfirhafnir, og, eins og flestir þekkja, getum borið nokkuð af snjó með okkur, s.s. undir skóm. Þá getur það einnig haft áhrif á rakastig inni í bíl ef maður gleymir drykkjaílátum eða jafnvel blautum íþróttafatnaði í bílnum.

Við getum því haft nokkur áhrif á rakastigið í bílnum með því að vera meðvituð um hvað veldur raka og gætt að því að fjarlægja blauta hluti, ílát og hálftómar flöskur úr bílnum.

 

Hvernig er hægt að losna við raka?

Oft dugar nýta miðstöðina og leyfa henni að keyra um stund í bílnum. Það er þó ekki alltaf nóg, sérstaklega ef um er að ræða króníska rakamyndum, ef svo mætti að orði komast. Það getur stafað af ofangreindum ástæðum en einnig ef bíll er ýmist ekki nógu þéttur, þ.e. kalt loft kemst einhvers staðar inn í hann, eða kominn er tími á að skipta um loftsíu í bílnum.

Hér eru því nokkur einföld ráð:

 • Þrífðu bílinn og taktu til í honum.
  Raki myndast þar sem eru óhreinindi á rúðu. Þá getur hugsanlega eitthvað blautt leynst undir sætum, t.d. gosflaska, blautur klútur eða eitthvað álíka sem er kannski ekki alltaf fyrir sjónum fólks.
 • Settu kattasand í gamla nælonsokka og láttu standa í bílnum yfir nótt.
  Kattasandur er mjög rakadrægur og drekkur í sig óæskilegan raka í bílnum.
 • Láttu lofta vel um bílinn.
  Gættu þó að því að velja dag þegar veður leyfir að hann standi með alla glugga opna.
 • Láttu miðstöðina ganga og þurrkaðu vel af rúðunum.
  Gott er að nota rakadræga klúta, t.d. eldhúspappír, en hafðu í huga að ef raki safnast á rúðu getur það verið til marks um að kominn sé tími til að þrífa hana.