Hérlendis getur verið allra veðra von og ætli flestir Íslendingar kannist ekki við það að fara að heiman að morgni í fínasta veðri en snúa aftur heim í leiðindaveðri. Það getur því verið sniðugt að búa bílinn vel og þá sérstaklega fyrir veturna. Hér eru því nokkur góð ráð.

Það getur verið ágætt að hausti að láta líta á rafgeyminn, því á veturna er mikið álag á honum. Við keyrum upp sætishitara, afþýðingarbúnað í fram- og afturrúðum, ljós, útvarp og svo mætti lengi telja á veturna og þá er betra að rafgeymirinn sé í góðu standi. Það er fátt verra en að festast uppi á heiði um miðja vetrarnótt í byl og rafgeymirinn gefur sig.

Óþarfi er kannski að minnast á það en góð vetrardekk eru algjör skylda. Hægt er að skeggræða hvort nota eigi nagladekk eða ekki en spurningin um hvort setja eigi vetrardekk undir bíl að hausti ætti ekki vera neinum vafa undirorpin. Að vori setjum við sumardekk undir og er fínt að miða við það þegar ekki gerir lengur næturfrost, vetur eru mislangir hérlendis og við þurfum að haga skiptum eftir aðstæðum hverju sinni.

Flestir nýir bílar eru bæði með skrið- og spólvörn. Á veturna ætti að vera kveikt á skriðvörninni, þ.e. ef bíllinn kveikir ekki sjálfvirkt á henni. Hún getur skilið milli þess að þú haldir bílnum á veginum eða lendir út í skurði ef þú missir stjórn á bílnum á hálkubletti á 40 km hraða. Spólvörnin er hugsuð til að tryggja að átakið sé fært á þau dekk sem hafa grip hverju sinni. Það geta komið upp aðstæður þar sem þú vilt taka spólvörnina af, t.d. í ákveðnum aðstæðum í snjó. Þó er gott að hafa í huga að ef þú hefur fest bílinn illa í snjó, þá viltu alls ekki að hann grafi sig dýpra með því að láta hann spóla.

Þetta er sniðugt!

Það er mjög mikilvægt að hugsa vel um rúðuþurrkurnar. Gott getur verið að sprauta reglulega tjörueyði á þær og þurrka vandlega. Ef þær eru hins vegar orðnar slappar þá munu þær ekki lagast af sjálfu sér og þá er kominn tími á að endurnýja þær. Til að auka endingu þeirra getur verið sniðugt að eiga gamalt sokkapar í bílnum og setja yfir þurrkurnar á veturna. Þá frjósa þær síður við framrúðuna og það fer einnig betur með gúmmíið.

Einn helsti galli þess að búa á þéttbýlu svæði er að oft fá bílar ekki að hitna nóg og þetta á sérstaklega við á veturna. Margir þurfa ekki að keyra langt milli heimilis og vinnu, setjast jafnvel upp í bíl, ræsa hann og aka svo beint af stað. Í kulda og snjó er það ekki endilega besta hugmyndin. Það getur margborgað sig að leyfa bílnum að hitna á meðan þú hreinsar snjó ofan af honum og skefur af rúðum. Bæði er vélin og þar með olían orðin heitari og betur í stakk búin að takast á við aðstæðurnar og eins er farartækið sjálft orðið hlýrra og því þægilegra að aka því.

Oft mynda bílar móðu innan á rúðum á veturna, sérstaklega ef það er raki inni í bílnum og nokkur hitamunur á loftinu annars vegar fyrir utan bílinn og hins vegar inni í honum. Það er því ekki sniðugt að geyma flöskur eða dósir með vökva í bílnum, því það eykur á rakann. Til að losna við rakann er hægt að hafa rúðurnar opnar í skamma stund áður en þú drepur á bílnum. Einnig eru miðstöðvar í flestum nýjum bílum afar öflugar og góðar rakavarnir.

 

Að lokum…

Loks er ekki úr vegi að minnast á mikilvægi þess að vera með fyrstu hjálpar kassa í bílnum. Einnig getur vasaljós, góðir vettlingar, húfa, lítil skófla og jafnvel poki af kattasandi átt heima í bílnum. Þá getur verið sniðugt, ef þú þarft að fara um þess háttar slóðir, að vera með teppi í bílnum.
Mikilvægasta reglan er þó alltaf sú, að fara varlega og haga akstri eftir aðstæðum hverju sinni.

Ef þú ert að hugsa um að endurnýja bílinn, ekki hika við að heyra í okkur og skoða úrvalið í Sýningarsalnum okkar.