Lýsing eignast Lykil

Sep 9, 2016 | Fréttir, Uncategorized

Lýsing hf. tók í dag formlega við eignasafni Lykils frá MP banka í samræmi við kaupsamning aðila 21. mars sl. og lögbundið samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.

Lykill býður bílasamninga og bílalán auk kaupleigusamninga til fjármögnunar á öku- og atvinnutækjum. Starfsemin verður áfram rekin undir vörumerkinu Lykill.

Viðskiptavinir Lykils eiga ekki að verða fyrir neinni röskun við færslu viðskipta þeirra yfir til Lýsingar. Réttindi og skyldur samkvæmt samningum breytast ekki vegna flutningsins. Þeir viðskiptavinir sem hafa nýtt sér beingreiðslur hjá Lykli verða sjálfkrafa áfram í beingreiðslu hjá Lýsingu. Greiðslustaður skuldaskjala Lykils verður framvegis hjá Lýsingu í nýju húsnæði félagsins við Ármúla 1. Greiðsla reikninga, samningar vegna skuldbreytinga og önnur samskipti sem snúa að frágangi skuldbindinga fara því ekki lengur fram hjá MP banka heldur Lýsingu. Gjaldskrár Lýsingar og Lykils verða sameinaðar og verður sameiginleg gjaldskrá birt á vefsíðu Lýsingar, www.lysing.is.

„Við bjóðum viðskiptavini Lykils hjartanlega velkomna til Lýsingar og hlökkum til að eiga gott samstarf við þá,“ segir Lilja Dóra Halldórsdóttir, forstjóri Lýsingar. „Við leggjum kapp á að gera flutninginn eins fyrirhafnarlausan fyrir viðskiptavinina og kostur er. Kaupin á Lykli eru til marks um stöðuga endurnýjun hjá Lýsingu sem er þó með elstu fjármálafyrirtækjum landsins. Við gerum okkur far um að byggja starfsemi okkar og samstarf við viðskiptavini á gagnsæi, áreiðanleika og trausti og draga lærdóm af hæðum og lægðum í næstum 30 ára samfelldri starfsemi félagsins.“Lýsing sendir viðskiptavinum Lykils bréf með nánari skýringum og upplýsingum um breytt eignarhald innan fárra daga.

Starfsemi Lykils fellur vel að starfsemi Lýsingar og styrkir stoðir félagsins. Kaupin undirstrika áform Lýsingar um frekari uppbyggingu og áframhaldandi forystu á sínu sviði. Í áætlunum Lýsingar um öflugri starfsemi félagsins felst meðal annars að bjóða upp á nýjungar á sviði fjármögnunar.

Salan á Lykli er jafnframt liður í því að skerpa frekar á sérhæfðri bankaþjónustu MP banka, einfalda skipulag bankans og auka áherslu á kjarnastarfsemi.