Á haustin eykst umferðin umtalsvert í höfuðborginni og bæði gott, að flýta sér hægt og sýna tillitssemi. Þá er gott að temja sér að leggja frekar fyrr af stað en seinna, vilji maður komast á leiðarenda á réttum tíma. Þannig getur kurteisi og tillitssemi margborgað sig.

Eins og flestir höfuðborgarbúar vita, þá þyngist umferðin þó nokkuð á morgnana á haustin, þegar mennta- og háskólarnir hefja kennslu á ný og við snúum aftur úr sumarfríum. Umferðin úr helstu hverfum borgarinnar og nærliggjandi byggðum getur oft á tíðum verið ansi þétt og mjakast hægt í átt að miðbænum. Ekki bætir úr skák þegar unnið er við vegaframkvæmdir við helstu gatnamót eða meginumferðaræðar.

Þá, sem endranær, er mikilvægt að sýna kurteisi og tillitssemi og stoðar lítið að steyta hnefa, bölva og berja í stýrið, þó að einhver hagi sér ekki eins og maður hefði sjálfur kosið. Þess heldur er þá skynsamlegra að anda með nefinu, kveikja á morgunútvarpinu og reyna fremur að njóta þess að eiga náðuga stund svona rétt á meðan maður ekur í vinnuna eða skólann.

Tannhjólið

Þegar við komum að aðreinum og sjáum að það eru einnig bílar í röð þar, er gott að hafa í huga að láta raðirnar renna saman eins og tannhjól eða rennilás. Það er, að hleypa einum bíl inn í röðina fyrir framan sig, hið sama gerir bíllinn fyrir aftan þig og svo koll af kolli. Með þessum hætti getur umferðin gengið snuðrulaust og við öll komist í vinnuna á skikkanlegum tíma.

Þá getur líka hjálpað ef við erum dugleg að gefa þeim sem hleypa okkur inn í röðina þakklæti til kynna. Sumir þakka fyrir sig með því að veifa, aðrir blikka hazard-ljósunum og enn aðrir sýna þumalinn eða „thumbs up“.

Leggjum fyrr af stað

Ein leið til að losna við allra hægustu morgunumferðina milli klukkan átta og níu, er einfaldlega að leggja fyrr af stað. Vissulega geta ekki allir gert það, enda margir sem fylgja börnum ýmist í grunn- eða leikskóla, en þeir sem eiga þess kost, þá getur það verið sniðugt lausn.

Eins, með því að leggja fyrr af stað, er minni hætta á að umferðin og umferðartafir fari í taugarnar á okkur og að við mætum heldur súr í bragði, með skeifu á munninum og allt á hornum okkar, þar til að við höfum náð að slaka á yfir kaffibolla.

Njótum morgnanna

Það getur verið ósköp notalegt að sitja inni í hlýjum bíl að morgni til og silast áfram í umferðinni. Maður kveikir á morgunútvarpinu, góðri tónlist eða situr bara í þögninni og veltir fyrir sér lífinu, tilverunni eða hvers vegna maðurinn í bílnum við hliðina ákvað að vera með grænt bindi við bleika skyrtu!

Að öllu gamni slepptu, besta leiðin til að tryggja að umferðin gangi sem allra best, er að við séum öll vel vakandi, tillitssöm og flýtum okkur hægt. Til þess að það gangi eftir þurfum við bara að sætta okkur við, að umferðin gengur hægt og við því er ekkert að gera annað en að njóta þess að eiga góða morgunstund.