Það getur verið erfitt að átta sig á hvort eða hvenær það er kominn tími á fjölga bílum. Það þarf að taka tillit til marga þátta þegar maður veltir fyrir sér hvort það eigi að vera einn eða tveir bílar á heimilinu. Hér eru nokkur atriði sem er gott að taka mið af. 

Fyrir ekki svo löngu síðan hafði fjölskyldufaðir samband við okkur og var að velta fyrir sér hvort hann ætti að bæta við bíl á heimilið. Hann tjáði okkur að hann væri með þrjú börn sem væru öll að æfa íþróttir og því færi ansi drjúgur tími á hverjum degi í alls kyns skutl og þess háttar. Hann vildi gjarnan vita hvort við værum með einhverjar leiðbeiningar hvað þetta varðar.

Stutta svarið er nei. Í raun verður hver og einn að meta það fyrir sig, hvort og hversu hagkvæmt það er að auka við bílaflotann. Það er nefnilega svo ótalmargt sem getur spilað inn í slíka ákvörðun, ekki einungis útgjaldaliðir. Þau atriði sem hér eru nefnd að neðan eru því aðeins hugleiðingar um kosti og galla þess að vera með tvo bíla, en við höfum ekki lagst í nákvæma útreikninga og viljum árétta að lesa beri þetta með það í huga. Aðeins þú getur reiknað út hagkvæmni þess að vera með tvo bíla á þínu heimili.

Minna stress, meiri tími með fjölskyldunni

Einn stærsti kosturinn við að vera á tveimur bílum er að því fylgir minna stress, þ.e. það þarf að taka tillit til færri þátta þegar verið er að skipuleggja ökuferðir dagsins. Þannig veitir það að vera á tveimur bílum okkur meiri sveigjanleika varðandi vinnu og tíma með fjölskyldunni. Við heyrðum af einni fjölskyldu sem gat dregið úr lengd viðveru yngsta barnsins á leikskóla, þar sem annað foreldrið mætti snemma til vinnu og gat þá hætt fyrr, á meðan hitt foreldrið mætti örlítið síðar og hætti síðar. Til að mynda gæti maður ímyndað sér að annar aðilinn hafi mætt um kl. 08 en hætt um kl. 16, hinn aðilinn mætt til vinnu um kl. 09 og hætt kl. 17. Þá hefur barnið verið á leikskóla frá um kl. 09 til kl. 16.

Að vera með tvo bíla þýðir einnig að ef annar bíllinn er af einhverjum sökum ekki virkur, ef svo mætti að orði komast, þá felur það ekki í sér mikil óþægindi fyrir heimilið. Við höfum öll lent í og lendum öll í að bílar bili og þurfi að fara á verkstæði. Stundum tekur ekki langan tíma að gera við þá, stundum tekur það aðeins meira en dagpart. Það getur ollið manni umtalsverðum vanda þegar bíllinn er bilaður, t.d. þegar maður þarf að komast úr vinnunni í miðbænum og sækja á leikskólann fyrir ákveðinn tíma.

Tveir bílar geta þýtt að það er auðveldara að sinna öllu skutli, án þess að báðir aðilar séu bundnir yfir því. Það getur því falist heilmikill tímasparnaður í því að eiga tvo bíla og aðeins þú getur verðmetið tíma þinn.

Hærri rekstrarkostnaður

Það er dýrara að reka tvo bíla en einn. Það kostar að eiga bíl, því fylgja skattar, kostnaður við tryggingar svo ekki sé nú minnst á eldsneytiskostnað, dekkjaskipti og almenn afföll. Það er ekki nokkur leið að reikna út hver munurinn sé á að eiga tvo bíla eða einn, enda oft verið að bera saman epli og appelsínu hvað það varðar, t.d. hvort er dýrara þegar upp er staðið að reka tvo litla japanska bíla eða einn stóran amerískan jeppa? Þú þarft í raun að leggja niður dæmið fyrir þig og reikna út hvort það sé fjárhagslegt rými á heimilinu fyrir rekstri annarrar bifreiðar og þá jafnvel hvernig bíls.

Það er hægt að taka tillit til margs í þeim útreikningi, t.d. mun rekstrarkostnaður þess bíls sem er fyrir á heimilinu líklega lækka, þar sem ekki er lengur jafn mikil þörf á aka hinum. Og fyrir þá sem eiga bíla sem eru í eldsneytisþyrstari kantinum gætu þannig sparast nokkrar krónur þar. Þá má náttúrlega líka skoða hvort það sé jafnvel hagkvæmara að bæta við rafbíl á heimilið sem bíl nr. 2, fremur en öðrum bíl sem gengur fyrir eldsneyti. Rafmagn er umtalsvert ódýrara en eldsneyti og hægt að lækka rekstrarkostnaðinn á bílakosti heimilisins umtalsvert, t.d. með því að nota rafbílinn í allt styttra skutl og innanbæjarsnatt. Þú getur séð eyðslu bílanna í Sýningarsalnum okkar, sem og skoðað hvaða rafbílar eru í boði. Eins geturðu reiknað hér muninn á orkuþörf rafbíla og eldsneytisbíla.

Aðeins þú getur reiknað dæmið til enda

Það að bæta við bíl á heimilið er heilmikil ákvörðun og taka þarf tillit til svo margra ólíkra þátta, þeir sem hér eru nefndir eru aðeins hluti þeirra. Aðeins þú getur reiknað dæmið til enda.

Við getum að sjálfsögðu aðstoðað og þjónustufulltrúar okkar eru boðnir og búnir til að vera þér innan handar með það.