Við getum verið misvel upplögð í umferðinni. Suma daga virðist okkur hafa verið úthlutuð endalaus þolinmæði, aðra daga erum við ekki jafn heppin. Og þá skiptir engu máli hvort einhver hleypir okkur inn í röðina, gleymir að gefa stefnuljós eða hvort bölvaður bjáninn á jeppanum þarna hangir í símanum á meðan hann er að keyra og spáir ekkert í það þegar hann svínar fyrir okkur! 

Ertu einn af þeim einstaklingum sem átt það til að garga hin ólíklegustu blótsyrði að hinum ökumönnunum í umferðinni? Upplifirðu oft að allir sem aka hægar en þú eru fávitar en þeir sem fara hraðar en þú brjálæðingar og stórhættulegir í umferðinni? Finnst þér oft eins og öll gamalmennin í umferðinni ættu heldur að ferðast með stætó og að hækka eigi bílprófaldurinn upp í að minnsta kosti 28 ár? Líður þér oft eins og öll rauðu ljósin, krakkarnir á vespunum, spandexklædda hjólaliðið og allar túristarúturnar sem sligast áfram á hraða sem spánarsniglar myndu skammast sín fyrir, séu þarna bara til að fara taugarnar á þér?

Ef þú kinkaðir kolli óþægilega oft, þá gæti hugsast að vandamálið liggi hjá þér. Vegareiði eða umferðarofsi er ekki uppbyggilegur í umferðinni. Það hjálpar engum að aka í hendingskasti á eftir einhverjum sem svínaði fyrir þig til þess eins að geta sýnt viðkomandi fingurinn. Það breytir engu þó þú eltir viðkomandi þar til hann stoppar, bara til þess eins að hella þér yfir viðkomandi og skvetta úr hálffullri mjólkurhristingsdollu inn í bílinn hans. Það eina og rétta í stöðunni er að slaka á. Anda rólega og muna að sameiginlegt markmið okkar allra í umferðinni er að komast heil á áfangastað.

Það er stundum sagt, að ef allir í kringum þig er fávitar, asnar og þaðan af verra, þá er kannski spurning um að stoppa og kíkja í spegilinn. Tökum því rólega í umferðinni, verum tillitssöm og látum ekki skapið hlaupa með okkur í gönur. Því ef við erum pirruð og látum hin minnstu atriði fara í taugarnar á okkur, þá erum við ekki lengur með hugann við aksturinn.