Þrífa bílinn að innan

Rétt eins og við þurfum að gæta að því að þrífa og bóna bílinn reglulega þá þarf að þrífa bílinn að innan. Okkur fylgir oft ótrúlega mikið dót og rusl á það til að safnast í öll möguleg og ómöguleg hólf venji maður sig ekki á að hirða það með sér um leið og bílnum er lagt. Fyrir utan rusl og drasl á borð við gosflöskur og sælgætisbréf getur mikill umgangur fljótt orðið til þess að bíllinn verður óhreinn að innan. Börn, eins yndisleg og þau eru, bera oft með sér sand og önnur óhreinindi á þeirra vegum geta verið fjölmörg og leiðinleg, óhreinindi á borð við kókómjólkurbletti í áklæðinu. Því betur sem við göngum um bílinn að innan því líklegra er að við komum auga á óhreinindi og getum þannig fyrr komið í veg fyrir þau myndi bletti eða fari jafnvel að lykta. Góð umgengni um bílinn að innan sem utan getur haft mjög jákvæði áhrif á endursöluverð.

Að hreinsa leður og leðursæti í bílum

Langflestir bílar eru að einhverju leyti leðurklæddir að innan. Hvort sem um er að ræða leðurklæði á stýri, hluta innréttingar eða sætum, þá þarf að þrífa og umgangast leðrið með réttum hætti. Þar sem enn hefur ekki tekist að rækta grænar eða bláar kýr (mest af því leðri sem finna má í bílnum kemur af nautgripum) þá hefur leðrið oft verið litað og það þarf að taka tillit til þess. Það þarf að nota til þess sérstök hreinsiefni enda getur leður dregið í sig óhreinindi og þá sérstaklega fitu af höndum okkar.

Hægt er að kaupa bæði leðurhreinsi og leðuráburð sem gott er að nota. Þá er sniðugt að vera með góða tusku úr bómull, mögulega gamla (en hreina) bómullarsokka en best er að nota góðar microfiber tuskur. Þá getur verið klókt að grípa með sér bæði eyrnarpinna og gamlan tannbursta. Því suma bletti þarf að nota aðeins öflugri meðul á og eins getur verið erfitt að ná til þeirra, s.s. að ná inn í glufurnar í kringum vörumerkið í stýrinu. Svo er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa heitt vatn og sápu við höndina.

Svo er einnig þægilegt að nota þrýstiloft ef menn búa svo vel að hafa aðgang að loftpressu. Þrýstiloft getur verið þægilegt til að ná upp óhreinindum úr erfiðustu glufum í sætum og innréttingu.

Að hreinsa teppi og pluss í bílum

Þegar maður er búinn að ryksuga bílinn almennilega þá rekur maður oft augun í hvimleiða og ljóta bletti. Þegar verið er að þrífa bílinn að innan er gott að vera með góðan blettahreinsi við höndina. Þeir fást bæði á bensínstöðvum og eins má nota suma blettihreinsi sem fást í verslunum. Við mælum þó alltaf með því að leiðbeiningar með slíkum efnum séu lesnar vandlega. Prófaðu þig áfram á litlum blettum sem eru ekki mjög sýnilegir. Þá er gott að að hafa góðan bursta við höndina. Skrúbba síðan vandlega og hreinsa með heitu vatni. Hið sama gildir um bletti í plussáklæði.

Við berum oft með okkur tjöru og drullu inn í bílinn sem safnast ofan í gólfteppin. Það geta verið ansi leiðinlegir blettir að eiga við. Þó er til ráð við þeim. Hægt er að nota handhreinsikrem sem framleitt er sérstaklega til að hreinsa smurolíu, sóti og þess háttar efnum af höndum. Enn og aftur, þá gildir hér að fara varlega fyrst og prófa sig áfram á blettum sem eru lítið fyrir augum. Nudda sápunni ofan í blettina með svampi og heitu vatni.

Að hreinsa mælaborð, rúður og gólfmottur í bílnum

Í flestum bensínstöðum má fá frábær hreinsiefni fyrir mælaborð sem óhikað má mæla með. Ef þú ert með hreinsiefni fyrir mælaborð í úðaformi, ekki úða því á mælaborðið. Úðaðu í tusku og notaðu hana til að bera efnið á flötinn. Annars getur þú fengið úða á glerið og of mikið magn á mælaborð getur í sumum bílum ratað inn fyrir gler/plast á mælum. Við hreinsun á mælaborðum gildir hið sama og áður, að vera með heitt vatn og tusku við höndina og fylgja vandlega leiðbeiningunum á umbúðum hreinsiefnanna. Þá gleyma margir að hreinsa gúmmí-gólfmotturnar eða láta nægja að skola af þeim með heitu vatni. Þær þarf engu að síður að þrífa með heitu vatni og sápu.

Til eru sérstakar sápur fyrir motturnar og gott að þrífa þær vandlega, sérstaklega af því að óhreinindi geta setið föst í raufum mottanna, einkum á veturna. Að lokum notar maður rúðuúða eða rúðuhreinsi og gætir þess að hreinsiefnið myndi ekki rákir á rúðunni. Hættan er sú að þar safnist óhreinindi og móða. Því getur verið gott að vera með tvær tuskur, eina til að spraut rúðuúðanum í og þrífa rúðuna og aðra þurra til að renna yfir rúðuna að því loknu. Hér gildir það sama ekki spreyja úðanum á rúðunu því rúðuhreinsirinn getur farið á mælaborðið og skilið eftir sig bletti.

Miklu skemmtilegra að aka um að hreinum bíl

Þegar þú ert búinn að þrífa bílinn hátt og lágt þá er virkilega gaman að taka góðan bíltúr og splæsa jafnvel í ís. Ef hins vegar göturnar eru blautar þá er ekkert spennandi að fara út í umferðina á nýþrifnum bílnum. Ekki nema ef við höfum bara þrifið hann að innan.