Stjórnarhættir

Lykill fjármögnun

Stjórnarháttayfirlýsing Lykils fjármögnunar hf.

 

1. Inngangur

Lykill fjármögnun hf. (hér eftir „Lykill“ eða „félagið“) er lánafyrirtæki sem stundar eignaleigu, lánastarfsemi og aðra fjármálaþjónustu í samræmi við starfsleyfi þess.

Starfsemi félagsins skiptist í tvö meginsvið; Viðskiptasvið og Stefnumótun og rekstur, en til viðbótar er um að ræða sjálfstæða einingu áhættustýringar.

 

Lykill er í eigu TM hf. (99,96%) og dótturfélags TM, TM tryggingar hf. (0,04%). Lykill er eigandi fjögurra dótturfélaga, LÝS-2 ehf., LÝS-3 ehf., Lýsingar ehf. og Kvakks ehf. sem eru með litla eða enga starfsemi.

Stjórnarháttayfirlýsing þessi er sett fram í samræmi við grein 6.1 í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem gefnar voru út í maí 2015 (5. útg.) af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins (hér eftir „Stjórnarháttaleiðbeiningarnar“), sbr. einnig 66. gr. c í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Yfirlýsingin er birt á vefsíðu félagsins (www.lykill.is). Þá er sérstakur kafli í ársreikningi um stjórnarhætti.

 

2. Tilvísanir í þær reglur um stjórnarhætti sem félagið fylgir eða ber að fylgja samkvæmt lögum og hvar slíkar reglur eru aðgengilegar almenningi

Samkvæmt 7. mgr. 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, skal fjármálafyrirtæki fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu, auk þess að gera grein fyrir stjórnarháttum á vefsíðu sinni og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína.

Lykill fylgir Stjórnarháttaleiðbeiningunum sem aðgengilegar eru á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands (www.vi.is).

 

3. Hvort félagið víki frá hluta leiðbeininganna um stjórnarhætti og þá hvaða.

Stjórnarháttaleiðbeiningarnar eru byggðar á meginreglunni „fylgið eða skýrið (e. comply or explain)“, sem felur í sér að ekki þarf að hlíta leiðbeiningunum í einu og öllu enda ekki um bindandi fyrirmæli að ræða. Kemur fram í tilmælunum að þannig sé tryggður sveigjanleiki fyrir fyrirtæki til að sníða stjórnarháttaleiðbeiningar að stærð sinni, uppbyggingu og starfssviði.

Þegar hins vegar vikið er frá leiðbeiningunum þá er ætlast til þess, að gerð sé grein fyrir frávikum og ástæðum þeirra, hvernig var komist að niðurstöðu um frávikið og þeirra úrræða sem gripið var til í staðinn, auk þess að upplýsa hvort frávikið sé tímabundið.

Í starfsemi Lykils er vikið frá leiðbeiningunum í eftirfarandi tilvikum:

Aðalfundur félagsins er ekki auglýstur á vefsíðu félagsins þegar tímasetning hans hefur verið ákveðin (grein 1.1.2). Ástæðan er sú að reglan er lítt hagkvæm fyrir fyrirtæki þegar einungis er um tvo hluthafa að ræða, sem að auki eru nátengdir. Í stað þess eru hluthafar boðaðir með sannanlegum hætti. Af sömu ástæðu er hluthöfum ekki sérstaklega gert kleift að taka þátt í hluthafafundum rafrænt né sérstaklega tiltekið í fundarboði á hvaða tungumáli fundurinn fer fram eða hvort túlkun standi til boða (greinar 1.1.1 og 1.1.4).

Ekki er starfandi tilnefningarnefnd í félaginu (grein 1.5). Ástæðan er sú að hluthafarnir tveir vilja nýta lögbundinn rétt sinn til stjórnarvals á hluthafafundum. Af þessu leiðir að tillögur slíkrar nefndar eru ekki kynntar í fundarboði aðalfundar (grein 1.1.5) og önnur ákvæði í leiðbeiningunum sem vísa til tilnefningarnefndar eiga ekki við. Jafnframt leiðir af framangreindri samsetningu hluthafa félagsins að upplýsingar um framboð til stjórnar eru ekki sett á vefsíðu félagsins (grein 1.1.6).

Félagið stefnir ekki sérstaklega að því að meirihluti stjórnar eða a.m.k. tveir stjórnarmenn séu óháðir stórum hluthafa félagsins (greinar 2.3.1 og 2.3.3). Ástæðan er sú að hluthafar félagsins vilja nýta lögbundið svigrúm til að skipa það fólk hverju sinni í stjórn félagsins sem það telur hæfast.

Ekki hefur verið sett sérstök stefna um samfélagslega ábyrgð félagsins (grein 2.9). Hins vegar má finna ýmis ákvæði í lögum og innri reglum félagsins, sem ætlað er að tryggja samfélagslega ábyrgð, auk þess sem félagið leitast eftir að starfa með slíkum hætti, sbr. nánari umfjöllun í töluðlið 6.

Varðandi upplýsingagjöf á vefsíðu félagsins um stjórnarhætti (grein 6.2.2.), þá er eðli máls samkvæmt ekki að finna þar neina umfjöllun um tilnefningarnefnd eða störf hennar þar sem hún er ekki fyrir hendi í félaginu eins og áður kom fram (liðir 6-8 í grein 6.2.2.). Þá eru ekki upplýsingar um hluthafafundi (liður 4) né fundargögn slíkra funda (liður 5) af sömu ástæðum og fjallað var um hér að framan.

 

4. Tilvísanir í annars konar reglur og viðmið sem einnig er farið eftir og eiga sérstaklega við um þá tegund rekstrar sem félagið stundar

Um starfsemi Lykils gilda lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, auk stjórnvaldsfyrirmæla settra á grundvelli þeirra laga. Þessu til viðbótar gilda ýmis önnur lagafyrirmæli sem eiga við um fjármálafyrirtæki eða starfsemi þeirra s.s. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998, lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 og lög um neytendalán nr. 33/2013, auk viðeigandi stjórnvaldsfyrirmæla. Þá hafa skuldabréf félagsins verið tekin til viðskipta í Kauphöll og þ.a.l. eiga lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti við um félagið sem útgefanda skuldabréfa.

 

5. Lýsing á helstu þáttum innra eftirlits og áhættustjórnunar félagsins

Stjórn Lykils ber ábyrgð á starfsemi og stefnumótun félagsins sem og áhættustefnu og að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Með innra eftirliti er stuðlað að því að félagið nái markmiðum sínum varðandi afkomu, áhættuvilja og áreiðanlegar fjárhagsupplýsingar og hlíti gildandi lögum og reglum.

Í grunninn byggir innra eftirlit félagsins á hefðbundnum þremur varnarlínum, þar sem í fyrstu varnarlínu eru þeir sem koma að ákvörðunartöku um viðskipti. Í annarri varnarlínu er hefðbundnar innri eftirlitseiningar, s.s. áhættustýring, regluvörður og ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti, sem ætlað er að fylgjast með virkni fyrstu varnarlínu. Í þriðju varnarlínu er stjórn, innri endurskoðun sem fylgist með gæðum stjórnarhátta, áhættustýringar og annars innra eftirlits.

Við áhættustjórnun er m.a. mótuð áhættustefna og áhættuvilji félagsins, leitast við að greina helstu áhættuþætti í rekstri þess og viðhafa viðeigandi eftirlitskerfi miðað við umfang starfseminnar, sem greinir, mælir og stýrir áhættu. Leitast er við að áhætta sé tekin að vel yfirveguðu máli og skv. skilgreindri stefnu, auk þess sem starfsmenn þekki áhættuþætti sem tengjast starfi þeirra. Þá ber stjórn ábyrgð á innra matsferli fyrir eiginfjárþörf, þar sem m.a. er horft til heildaráhættu í starfsemi félagsins og hvernig megi milda, stýra og mæta áhættu með viðeigandi hætti.

Áhættunefnd stjórnar er henni til ráðgjafar vegna áhættu í starfsemi félagsins í samræmi við ákvæði laga. Þá bera stjórnendur og starfsmenn ábyrgð á eftirliti og stjórnun áhættu sem tengist einingum þeirra. Áhættustýring hefur eftirlit með ákvörðunum og vöktun áhættu.

Þar sem skuldabréf félagsins hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum markaði, þá starfar regluvörður hjá félaginu í samræmi við 130. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Jafnframt er til staðar ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skv. 34. gr. laga um það efni nr. 140/2018.

Innri endurskoðun leggur mat á virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta og veitir endurgjöf til stjórnar félagsins og stjórnenda, sem horft er til við endurmat á innra eftirliti.

Fjármál og rekstur TM hf. annast m.a. gerð uppgjöra, almenna færslu bókhalds og önnur reikningsskil Lykils á grundvelli útvistunarsamnings milli aðila. Það tekur saman upplýsingaskýrslur um fjárhagsstöðu félagsins m.t.t. ýmissa þátta og leggur fyrir hefðbundna stjórnarfundi. Reikningsskil félagsins eru gerð skv. alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, IFRS, og birt opinberlega. Þau eru endurskoðuð (ársuppgjör) eða könnuð (árshlutauppgjör) af löggiltum endurskoðendum. Endurskoðunarnefnd stjórnar félagsins fjallar reglubundið um reikningsskil þess og endurskoðun.

Frekari umfjöllun um áhættustýringu og innri endurskoðun er að finna í skýringum með ársreikningi félagsins sem aðgengilegur er á heimasíðu þess, (www.lykill.is).

 

6. Upplýsingar um stefnu um samfélagslega ábyrgð og siðferðisviðmið

Lykill hefur sett siðareglur fyrir starfsfólk, stjórnendur og stjórn félagsins með það fyrir augum að stuðla að ábyrgri ákvarðanatöku og trúverðugleika starfseminnar. Reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins (www.lykill.is).

Lykill hefur ekki sett sér sérstaka samfélagsstefnu, en hins vegar hvíla ríkar lagaskyldur á félaginu um ábyrga starfsemi og góða viðskiptahætti. Þá telur Lykill að með starfsemi sinni sýni félagið samfélagsábyrgð í verki með því að sinna viðskiptavinum af kostgæfni og bjóða þeim upp á leiðir til að ná markmiðum sínum í fjármögnun í samkeppni við stærri aðila á markaði. Þessu til viðbótar er hugað að slíkum málum í starfsemi félagsins.

Sem dæmi má nefna, að varðandi umhverfisvernd, þá leitast félagið við að auka möguleika á rafrænum lausnum við veitingu þjónustu sinnar auk þess sem í vöruframboði hefur verið boðið upp á fjármögnun rafbíla með hagkvæmari hætti en áður. Þá hefur Lykill stigið stórt skref í átt að kolefnisjöfnun bílaflota í eigu félagsins í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti með samningi við Kolvið, en allir rekstrarleigubílar félagsins eru kolefnisjafnaðir. Jafnframt er sorp flokkað á starfsstöðvum og dregið hefur verið úr sóun á pappír með minnkun útprentunar og skilvirkari prentlausnum.

Þá má nefna að Lykill hefur verið bakhjarl íþróttasambanda og góðgerðarsamtaka ásamt því að styrkja ýmis félagasamtök í gegnum tíðina.

Þessu til viðbótar má vísa til skýringa í ársreikningi félagsins þar sem nánar er fjallað um ófjárhagslegar upplýsingar og stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál en jafnframt má finna samfélagsskýrslu(UFS skýrslu) samstæðunnar á heimasíðu tm.is.

 

7. Lýsing á samsetningu og starfsemi stjórnar, framkvæmdastjórnar og undirnefnda stjórnar

Stjórn Lykils er skipuð sex einstaklingum og tveimur til vara kosnum á aðalfundi félagsins til eins árs í senn, sbr. nánari umfjöllun í tölulið 12. Formaður er valinn af stjórn félagsins á fyrsta stjórnarfundi. Stjórn fundar að jafnaði einu sinni í mánuði en stopulla yfir sumarið.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess á milli hluthafafunda og ber ábyrgð á starfsemi þess og stefnumótun. Stjórnin hefur jafnframt yfirumsjón og almennt eftirlit með því að starfsemi og rekstur félagsins sé í samræmi við lög, samþykktir og aðrar reglur sem um starfsemina gilda. Þá gætir stjórnin þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins og samþykkir m.a. áhættustefnu, áhættuvilja og fyrirkomulag áhættustýringar. Um störf stjórnar er nánar vísað til VII kafla laga um fjármálafyrirtæki og IX laga um hlutafélög. Þá er í starfsreglum stjórnar nánar kveðið á um störf hennar. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og innri endurskoðanda.

Tvær undirnefndir starfa á vegum stjórnar, þ.e. Endurskoðunarnefnd og Áhættunefnd. Endurskoðunarnefnd og Áhættunefnd eru skipaðar þremur aðilum hvor fyrir sig, sbr. nánar töluliði 9 og 12. Endurskoðunarnefnd hefur eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila og virkni innra eftirlits og innri endurskoðunar. Þá hefur nefndin eftirlit með endurskoðun reikningsskila, metur óhæði endurskoðenda og gerir tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda. Áhættunefnd sinnir ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn fyrirtækisins, m.a. vegna mótunar áhættustefnu, áhættuvilja fyrirtækisins sem og vegna álagsprófa.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins í samræmi við stefnu stjórnar, sbr. nánari umfjöllun í tölulið 15. Framkvæmdastjórn samanstendur af framkvæmdastjóra, yfirmanni áhættustýringar og tveimur stjórnendum, sem fara fyrir starfseiningum skv. skipuriti félagsins, sbr. tölulið 1. Nánari upplýsingar um stjórnendur og verkefni starfseininga félagsins er að finna á heimasíðu þess (www.lykill.is).

Lykill hefur ekki sett sér sérstaka stefnu um fjölbreytileika stjórnar og framkvæmdastjórnar með tilliti til þátta á borð við aldur kyn eða menntunarlegan og faglegan bakgrunn.

Engin fulltrúanefnd starfar hjá félaginu.

 

8. Fyrirkomulag skipunar nefndarmanna tilnefningarnefndar Lykill hefur ekki skipað tilnefningarnefnd.

Lykill hefur ekki skipað tilnefningarnefnd.

 

9. Fyrirkomulag skipunar nefndarmanna undirnefnda

Stjórn Lykils skipar í Endurskoðunarnefnd og Áhættunefnd. Endurskoðunarnefnd er skipuð þremur einstaklingum, sem hafa góða þekkingu á sviði reikningsskila og endurskoðunar, þar af tveimur óháðum aðilum og einum stjórnarmanni. Meirihluti nefndarinnar telst því óháður félaginu eða stórum hluthöfum, sbr. nánari umfjöllun um nefndarmenn í tölulið 12. Þá er Áhættunefnd stjórnar einnig skipuð þremur einstaklingum, tveimur stjórnarmönnum og einum óháðum. Hafa nefndarmenn þekkingu og starfsreynslu til að vinna að mótun áhættustefnu og áhættuvilja félagsins.

 

10. Upplýsingar um fjölda stjórnarfunda og funda undirnefnda og mætingu

Á árinu 2020 voru haldnir 21 stjórnarfundur með fullri mætingu stjórnarmanna. Þá hefur Endurskoðunarnefnd stjórnar fundaði 14 sinnum og allir nefndarmenn mættu. Jafnframt hefur Áhættunefnd stjórnar fundað 10 sinnum þar sem allir nefndarmenn voru viðstaddir.

 

11. Upplýsingar um hvar nálgast megi starfsreglur stjórnar og undirnefnda

Starfsreglur stjórnar og starfsreglur Endurskoðunarnefndar og Áhættunefndar má finna á vefsíðu félagsins (www.lykill.is).

 

12. Upplýsingar um stjórnarmenn og nefndarmenn í endurskoðunarnefnd Aðalmenn í stjórn Lykils:

Aðalmenn í stjórn Lykils

Sigurður Viðarsson er fæddur árið 1976. Sigurður var fyrst kjörinn í stjórn Lykils á hluthafafundi 7. janúar 2020. Sigurður er formaður stjórnar Lykils og á sæti í Áhættunefnd stjórnar félagsins. Hann er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Sigurður hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Sigurður er með BSc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Sigurður er forstjóri TM hf. en hann starfaði áður hjá Kaupþingi Líf m.a. sem aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri fjármála- og tryggingaþjónustu.

Kristín Friðgeirsdóttir er fædd árið 1971. Kristín var fyrst kjörin í stjórn Lykils á hluthafafundi 7. janúar 2020. Kristín er varaformaður stjórnar Lykils. Hún er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Kristín hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Kristín er ráðgjafi og kennari í stjórnunar- og rekstrarfræðum við London Business School. Kristín hefur starfað sem ráðgjafi hjá McKinsey, Intel, Yahoo og öðrum vef- og fjármálafyrirtækjum. Kristín útskrifaðist með B.S.-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1995, M.S.-gráðu í fjármálaverkfræði frá Stanford-háskóla árið 1997 og lauk árið 2002 Ph.D. í rekstrarverkfræði frá sama skóla. Kristín situr í háskólaráði Háskólans í Reykjavík og situr í stjórn Distica hf. og Völku ehf.

Örvar Kærnested er fæddur árið 1976. Örvar var fyrst kjörinn í stjórn Lykils á hluthafafundi 7. janúar 2020. Hann er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Örvar hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Örvar er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfaviðskiptum. Örvar starfaði á árunum 1999–2008 hjá Kaupþingi banka og síðar hjá Stodir UK Ltd.

Andri Þór Guðmundsson er fæddur árið 1966. Andri var fyrst kjörinn í stjórn Lykils á hluthafafundi 27. apríl 2020. Hann er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Andri hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Andri er með cand.oceon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA próf frá Rotterdam School og Management. Andri hefur verið forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar frá árinu 2004 og situr í stjórn hjá ýmsum félögum.

Einar Örn Ólafsson er fæddur árið 1973. Einar var fyrst kjörinn í stjórn Lykils á hluthafafundi 27. apríl 2020. Hann er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Einar hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Einar er menntaður véla- og iðnaðarverkfræðingur og hefur MBA gráðu frá New York University. Einar starfaði á árunum 1997-2001 og 2004-2009 hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Íslandsbanka og starfaði síðar sem forstjóri Skeljungs og framkvæmdastjóri Fjarðarlax. Einar er stjórnarformaður Terra hf, Löðurs ehf, og Dælunnar ehf.

Helga Kristín Auðunsdóttir er fædd árið 1980. Helga Kristín var fyrst kjörin í stjórn Lykils á hluthafafundi 27. apríl 2020. Hún er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Helga er lögfræðingur með BS-próf í viðskiptalögfræði og ML-próf í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst ásamt LLM-prófi í alþjóðlegum viðskiptarétti og samningsgerð frá Háskólanum í Miami. Helga Kristín hefur starfað í rúman áratug sem stjórnandi og lektor við Háskólann á Bifröst. Þar áður starfaði hún sem lögfræðingur hjá Stoðum hf. og kennari við Háskólann í Miami.

Varamenn í stjórn Lykils

Bjarki Már Baxter er fæddur árið 1982. Bjarki var fyrst kjörinn í varastjórn Lykils á hluthafafundi 7. janúar 2020. Hann er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Bjarki hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Bjarki er lögfræðingur að mennt og starfaði sem yfirlögfræðingur WOW air ehf. Á árunum 2013 – 2015 starfaði hann sem lögmaður hjá Hildu ehf. og 2011–2013 var hann yfirlögfræðingur slitastjórna Frjálsa hf. og SPRON hf. Hann situr í stjórn Hylju verktaka ehf.

Bryndís Hrafnkelsdóttir er fædd árið 1964. Bryndís var fyrst kjörin í varastjórn Lykils á hluthafafundi 7. janúar 2020. Hún er ekki hluthafi í félaginu en er háður stjórnarmaður vegna tengsla við eiganda félagsins. Bryndís hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Hún er viðskiptafræðingur (cand. oecon.) frá Háskóla Íslands 1989 og MS í viðskiptafræði frá sama skóla 2015. Hún hefur frá árinu 2010 verið forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands. Á árunum 2000–2006 var hún framkvæmdastjóri Debenhams á Íslandi, starfaði á fjármálasviði samstæðu Kaupþings banka hf. 2007–2008 og var fjármálastjóri Landfesta hf. á árunum 2008–2010. Hún er stjórnarformaður Ofanleitis 1 ehf. og formaður skólanefndar Verzlunarskóla Íslands. Einnig situr hún í stjórn Regins hf.

Nefndarmenn í Endurskoðunarnefnd og Áhættunefnd

Sigurður Jónsson er fæddur árið 1956. Sigurður var kjörinn í Endurskoðunarnefnd og Áhættunefnd Lykils í janúar 2020 og sinnir formennsku í báðum nefndum. Hann er ekki hluthafi í félaginu og er óháður nefndarmaður. Þá hefur hann ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Sigurður er löggiltur endurskoðandi og starfar sjálfstætt í dag en var áður einn af eigendum hjá KPMG ehf.

Margrét Flóvenz er fædd árið 1959. Margrét var kjörin í Endurskoðunarnefnd í mars 2020 og sinnir formennsku í nefndinni. Hún er ekki hluthafi í félaginu og er óháður nefndarmaður. Þá hefur hún ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins. Margrét er löggiltur endurskoðandi og starfar sjálfstætt í dag en var áður einn af eigendum hjá KPMG ehf.

 

13. Upplýsingar um hvaða stjórnarmenn eru óháðir félaginu og stórum hluthöfum

Engir stjórnarmenn eru óháðir félaginu eða stórum hluthöfum í félaginu, sbr. umfjöllun í tölulið 12.

 

14. Helstu þættir í árangursmati stjórnar

Árangursmat stjórnar hefur ekki farið fram á árinu 2020 en ný stjórn tók til starfa á árinu. Fyrirhugað er að árangursmat stjórnar fari fram fyrri hluta ársins þar sem lagt verður mat á stjórnarhætti, stærð stjórnar, samsetningu stjórnar m.t.t. reynslu og hæfni, ýmsa þætti í verklagi, s.s. upplýsingagjöf, stefnumótun og framtíðarsýn, þátttöku- og framlag stjórnarmanna til starfa stjórnar, skoðanaskipti og skilvirkni stjórnarfunda. Jafnframt verður fjallað um starf Endurskoðunarnefndar og Áhættunefndar og hvort ástæða sé til að skipa frekari undirnefndir.

 

15. Upplýsingar um framkvæmdastjóra félagsins og lýsing á helstu skyldum hennar

Ólöf Jónsdóttir er fædd 1980 og er véla- og iðnaðarverkfræðingur (BS) frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í aðgerðarrannsóknum frá London School of Economics. Ólöf hefur starfað í hálfan annan áratug á íslenskum fjármálamarkaði. Frá árinu 2017 starfaði hún hjá Kviku banka, fyrst sem forstöðumaður stefnumótunar og rekstrarstjórnar og síðar forstöðumaður fjártækni. Ólöf hefur verið framkvæmdastjóri Lykils frá apríl 2020.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri félagsins og stýrir starfseminni í samræmi við stefnu stjórnar. Framkvæmdastjóra ber að sjá til þess að rekstur félagsins sé í samræmi við lög og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Um ábyrgð og skyldur framkvæmdastjóra er nánar vísað til VII kafla laga um fjármálafyrirtæki og IX kafla laga um hlutafélög.

 

16. Upplýsingar um brot á lögum og reglum sem viðeigandi eftirlits- og eða úrskurðaraðili hefur ákvarðað

Engar ákvarðanir eftirlits- og/eða úrskurðaraðila um brot á lögum eða reglum liggja fyrir gagnvart félaginu á árinu 2021.

 

17. Fyrirkomulag samskipta hluthafa og stjórnar

Hluthafar í Lykli voru tveir í byrjun janúar 2021. Stjórn félagsins hefur samskipti við hluthafa í samræmi við lög, samþykktir og starfsreglur stjórnar. Formaður stjórnar stýrir almennt samskiptum stjórnar við hluthafa. Stjórnarmenn skulu í störfum sínum og við ákvarðanatöku starfa með hagsmuni Lykils að leiðarljósi samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, auk annarra lagafyrirmæla sem um starfsemina gilda.