Sólin er tekin að hækka á lofti og þrátt fyrir að hugsanlega komi eitthvað vorhret má gera ráð fyrir því að ekki líði á löngu þar til að gras taki að grænka. Það þýðir ekki bara að við þurfum að taka bílinn í gegn og búa hann undir sumarið (sjá hér) heldur þarf líka að gefa gaum að breyttum aðstæðum. Sólin skín og getur truflað ökumenn.

Starfsfólk borgarinnar er í óða önn að hreinsa sand af gangstéttum og yfir borginni hangir rykský, nokkuð sem minnir mann óhjákvæmilega á að vorið sé á næsta leyti. Enda þegar maður ekur framhjá bílaþvottastöðvum má alltaf sjá langar raðir bíla og jafnvel eru bensínstöðvarnar margar búnar að tengja kústa og slöngur á bílaþvottaplönunum. Það er ekki laust við að það kitli enda kominn tími á að setja sumardekkin undir og það er alltaf aðeins skemmtilegra að aka um þegar sólin skín.

Sólin hérlendis getur hins vegar verið til vandræða. Það getur orðið mjög bjart og á tímum, sérstaklega á vorin og haustin, skín hún beint í augun á ökumönnum á háannatímum í umferðinni. Bjartviðri og gulleitt rykskýið yfir borginni hafa saman átt sinn þátt í aftanákeyrslum og öðrum óhöppum. Það er því ekki úr vegi að minna ökumenn á að fara varlega, jafnvel notast við góð sólgleraugu og hafa á bakvið eyrað að þegar aðstæður eru með þessum hætti að þá gildir að betra sé að komast heill á höldnu á áfangastað, en að flýta sér um of.

Þá er líka gott að skoða tryggja að nóg rúðupiss sé á bílnum enda getur rykið sest á rúðuna og þegar sólin skín nokkuð lárétt inn um rúðuna getur þetta tvennt valdið því að ökumenn blindast svo um munar. Það er ekki úr vegi að þrífa líka vinnukonurnar, og þar getur hjálpað mjög að vera með tjöruhreinsi sem sprautað er á gúmmíkantinn. Ef þurrkurnar eru orðnar slappa eftir veturinn, þá sakar ekki að koma við á næstu bensínstöð og fá starfsfólkið þar til að skipta um þær, þá er einnig hægt að láta gera það þegar maður fer með bílinn í smurningu.