Skipurit

Skipurit félagsins má sjá á eftirfarandi mynd. Hjá Lykli starfar 35 manna hópur samhentra sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, þekkingar og reynslu.

Lykill er eigandi að fjórum dótturfélögum, LÝS-2 ehf., LÝS-3 ehf., Lýsingu ehf. og Kvakks ehf. sem hefur litla sem enga starfsemi.

Viðskiptasvið

Viðskiptasvið Lykils sinnir fyrirtækja- og einstaklingsþjónustu. Hlutverk sviðsins eru eftirfarandi:

Fyrirtækjaþjónusta: Fjármögnun á ökutækjum og ýmsum tegundum atvinnutækja með eignaleigusamningum og veðlánssamningum. Á sviðinu fer einnig fram meðhöndlun almennra fyrirspurna og samskipti við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Einstaklingsþjónusta: Fjármögnun á bifreiðum og öðrum skráningarskyldum tækjum með eignaleigu- og veðlánssamningum. Á sviðinu fer einnig fram meðhöndlun almennra fyrirspurna og samskipti við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Lykill sérhæfir sig í eignatryggðri fjármögnun (e. asset based financing) fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Meginfyrirkomulag fjármögnunarsamninga fram til ársins 2010 var eignaleiga, en frá þeim tíma veðtryggð skuldabréfalán. Lykill býður einnig upp á fjármögnun með öðrum hætti. Nýjar vörur á síðustu árum eru m.a. vaxtalaus lán, Flotaleiga, fastvaxtalán og Lykillán, Lykilsamningar, Lykilleiga og Lykilfé.

Undir viðskiptasviði er einnig ábyrgð á vöru- og viðskiptaþróun félagsins, bæði hvað varðar þróun núverandi vöruframboðs og þróun nýrra vara. Þar liggur jafnframt ábyrgð á kynningarstarfi og markaðsmálum félagsins, gerð auglýsingaefnis og umsjón með vef Lykils. Enn fremur er haldið utan um samskipti við samstarfsaðila Lykils, bæði vegna Flotaleigu og Lykilleigu og við sölu- og þjónustuaðila bifreiða, véla og tækja. Þá fellur starfsemi viðskiptaþjónustu og bakvinnslu einnig undir sviðið.

Rekstrarsvið

Rekstrarsvið ber ábyrgð á almennum rekstri og rekstrarkostnaði vegna skrifstofu Lykils og hefur eftirlit með þessum þáttum. Þá ber sviðið ábyrgð á greiningu upplýsinga í rekstrarlegum tilgangi, uppbyggingu tölvukerfa og öðrum tæknimálum, þjónustu þeim tengdum og öryggismálum í upplýsingatækni og öðrum rekstri félagsins. Enn fremur sér rekstrarsvið um almenn innkaup félagsins.

Undir sviðið fellur einnig umsýsla fullnustu- og rekstrareigna félagsins. Hlutverk eignaumsýslu er að taka við leigumunum við skil og sjá um að þeir séu verðmetnir, meta hvort viðgerða er þörf og koma þeim í viðeigandi sölumeðferð. Þá sjá starfsmenn sviðsins til þess að ástand og ásýnd þeirra eigna sem eru í sölumeðferð sé viðunandi. Starfsmenn sviðsins eru í samskiptum við verkstæði, innlenda og erlenda sölumenn, uppboðsaðila, skoðunarstöðvar, tryggingafélög o.fl.

Þá starfar eftirlitsmaður á sviðinu sem fylgist með ástandi og verðmetur leigumuni og veðandlög eftir því sem við.

Áhættustýring

Meginhlutverk áhættustýringar er að styðja stjórn og stjórnendur í eftirlitshlutverki sínu, m.a. með því að greina mælanlega áhættuþætti sem geta haft bein fjárhagsleg áhrif á afkomu fyrirtækisins og leita leiða til að stýra þeim, en stjórn félagsins samþykkir áhættustefnu, áhættuvilja og framkvæmd áhættustýringar og hefur eftirlit með að markmið séu yfirfarin og gerðar viðeigandi ráðstafanir. Framkvæmdastjóri og sviðsstjórar bera ábyrgð á að helstu áhættuþættir í rekstri félagsins séu skilgreindir og skal áhættustýring sjá til þess að söfnun upplýsinga um þá sé virk og að skýrslugjöf gefi sem skýrasta mynd af áhættu félagsins á hverjum tíma.

Áhættustýring félagsins felst m.a. í grundvallarviðhorfi allra starfsmanna og stjórnenda til áhættu og hvernig á henni er tekið. Þá tekur áhættustýring einnig til áhættuvilja félagsins, eftirlits, hæfni starfsfólks, skipulags og stjórnarhátta.