Þegar við kaupum bíl í dag stöndum við frammi fyrir því að geta valið um orkugjafa. Bílar í dag notast jú ekki eingögnu við jarðefnaeldsneyti, heldur er hægt að fá bæði góða hybrid bíla sem og framúrskarandi rafbíla. Eins og með eldsneytis- og díselbíla þá fylgja hinum tegundum tveimur kostir og gallar og hér ætlum við að skoða kosti og galla þess að eiga rafbíl á Íslandi. Rafbílar eru sífellt að verða vinsælli, enda hagkvæmur og vistvænn valkostur. Þú getur fundið úrval rafbíla í Sýningarsalnum á netinu hjá Lykli.

Kostir rafbíla

Rafbílar eru náttúruvænni. Vistspor þeirra er umtalsvert minna en bíla sem brenna hvers kyns eldsneyti, enda fylgir þeim enginn útblástur. Hérlendis framleiðum við auk þess rafmagn með býsna vistvænum hætti. Þá hefur rafhleðsustöðvum fjölgað umtalsvert á síðustu árum sem auðveldar aðgengi að hleðslu þegar þörf er á.

Rafbílar eru ódýrari í rekstri. Bæði er rafmagn á Íslandi umtalsvert ódýrara en jarðefnaeldsneyti og það þarf ekki að flytja það heimshorna á milli (með tilheyrandi mengun) og einnig þurfa rafmagnsbílar ekki að fara reglulega í smurningu.

Þá hafa rannsóknir einnig sýnt að margir slitfletir, á borð við bremsuklossa, þurfa ekki jafn mikið viðhald og hjá eldsneytisbílum, enda ekki jafn margir vélarhlutar sem geta bilað.

Rafbílar eru hljóðlátir. Vélar þeirra drynja ekki og rafbílar líða gott sem hljóðlaust áfram. Ef allir ækju um á rafbílum væri hinn hefðbundni borgarumferðarniður því að miklu leyti úr sögunni eða að minnsta kosti væri umtalsvert lægri.

Gallar rafbíla

Drægni rafbíla er minni en eldsneytisbíla. Rafbílar draga að meðaltali 80-150 km á hleðslu. Það dugar flestum í hið hefðbundna borgarsnatt en hentar síður til langkeyrsla á þjóðvegum landsins. Þá hefur hitastig áhrif á drægni og hérlendis, þar sem bæði er allra veðra von sem og lágur meðalhiti, getur það haft áhrif á drægni frá degi til dags.

Það er mikilvægt að geta hlaðið rafbílinn heima við. Hægt er að tengja rafbíla við hefðbundnar innstungur en þá hleðst bíllinn fremur hægt. Fyrir vikið er eiginlega nauðsynlegt að kaupa hleðslustöð til að eiga heima við. Við mælum með því að þú fáir rafvirkja til að setja upp hleðslustöðina fyrir þig, enda getur það margborgað sig.

Þó að rafbílar séu viðhaldsminni en hefðbundnir bílar er raunin sú að þegar þeir bila getur það verið nokkuð kostnaðarsamt. Til að mynda eru ný batterí sérlega dýr og ekki auðvelt að komast í ódýrari varahluti, t.d. á partasölum.

Sumir hafa sett spurningamerki við þá fullyrðingu að rafbílar séu náttúruvænni. Rafbílar þurfa að vera léttir og þá er notað mikið af fágætum málmum í þá, t.d. í batteríin, en það kallar á aukinn námugröft.

Frábærir rafbílar í Sýningarsalnum

Í Sýningarsalnum okkar má með auðveldum hætti sía út alla rafbíla. Þú einfaldlega velur rafmagn í eldsneytisdálkinum í leitarvélinni okkar og færð þannig upp alla rafbílana. Þar finnurðu m.a. Nissan Leaf og Kia Niro Hybrid.

Hvað þýðir EV, HEV og PHEV á rafbílum

Það getur verið erfitt að átta sig á hvað allar skammstafanirnar þýða á rafbílum. Stundum er búið að þýða erlend heiti og þá fer að verða erfitt að bera saman kostina. Hér eru útskýringar á muninum á rafbílum.

EV rafbíll

Electric Vehicle
Rafmagnsbíll

EV er rafmagnsbíll sem gengur eingöngu fyrir rafmagni.

HEV rafbíll

Hybrid Electric Vehicle
Tvinnbíll – bæði eldsneyti og rafmagn

HEV eða Hybrid gengur bæði fyrir bensíni og rafmagni. Tveir mótorar eru í bílnum annars vegar rafmótor og hins vegar bensínmótor. Bíllinn stýrir sjálfur hvor vélin er notuð en leitar alltaf eftir því að lágmarka orkunotkun. Þegar bensínmótorinn er notaður þá hlaðast rafhlöður bílsins. Ef orka er á rafhlöðunum sem dugar fyrir aksturslag á hverjum tíma þá tekur rafmagnið við. Yfirleitt er þetta þannig að þegar gefið er vel inn þá tekur bensínmótorinn yfir en þegar ekið er rólega og þegar bíllinn er kominn á jafnan hraða þá tekur rafmótorinn við.

PHEV rafbíll

Plug in Hybrid Electric Vehicle
Tvinntengilbíll eða Tengiltvinnbíll – bæði eldsneyti og rafmagn, og hægt að hlaða með rafleiðslu.

PHEV eða Plug in Hybrid býr yfir sömu eiginleikum og Hybrid en að auki er hægt að stinga í samband og hlaða bílinn. Það er því hægt að byrja á að nýta rafmagnið áður en bensínmótorinn tekur við. Hér gildir það sama að ef rafmagnið á rafgeymum er ekki nægjanlegt miðað við aksturslag þá tekur bensínmótorinn við.