Mótorhjólunum fjölgar á götunum með hækkandi sól. Algengustu slys sem bifhjólafólk lendir í er þegar ekið er í veg fyrir það eða ekið á það. Því skiptir enn meira máli á sumrin að vera vel með á nótunum og vakandi fyrir umhverfinu þegar maður er undir stýri. Líttu tvisvar er góð regla.

Á sumrin fjölgar þeim til muna sem taka þátt í umferðinni, hvort heldur sem er fótgangandi, á reiðhjólum, í bifreiðum eða á mótorhjólum. Þegar grunnskólunum lýkur fjölgar fótgangandi til muna, hvort sem um er að ræða börn að leik eða á leið á hinar ýmsu æfingar eða leikjanámskeið. Eins draga margir fram reiðhjólin úr geymslunum, þrífa þau og smyrja og nýta góða veðrið til að hjóla, t.d. til vinnu. Þá fjölgar einnig þeim sem kjósa að ferðast milli staða á mótorhjólum.

Við þurfum alltaf að hafa gætur á okkur í umferðinni en þegar það verður þetta mikil breyting á samsetningu þátttakenda í umferðinni, þá gildir að sýna hvert öðru tillitssemi og bera virðingu fyrir ólíkum ferðamátum. Algengustu tjón sem bifhjólafólk verður fyrir er þegar ekið er í veg fyrir þá eða einfaldlega beint á þá. Og algengasta afsökun ökumanna er, að þeir hafi einfaldlega ekki séð viðkomandi bifhjólamann. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa í huga, að líta tvisvar, hvort sem við erum í þéttbýli eða úti á vegum.

Samgöngustofa lét gera þessa auglýsingu fyrir nokkrum árum, einmitt með áherslu á að líta tvisvar, og hvöttu ökumenn til að taka tillit til bifhjólafólks. Við tökum undir þetta. Ef við leggjumst öll á eitt, þá getum við fækkað þessum slysum og óhöppum, með því að vera meðvituð um að aðrir ökumenn, sama hvers kyns farartæki þeir aka, kunna ekki að lesa hugsanir og að nota hjálpartæki eins og stefnuljós getur auðveldað öðrum að átta sig á því hver ætlun okkar er hverju sinni. Lítum tvisvar og flýtum okkur hægt. Þannig komumst við öll heim.