Lykill verður áfram einn af aðal styrktaraðilum KKÍ.

Í dag endurnýjuðu KKÍ og Lykill samstarfssamning til 2ja ára og verður Lykill því áfram einn af aðal styrktaraðilum körfubolta á Íslandi. Í samstarfssamningnum verður sem áður lögð áherslu á ungmennastarf KKÍ og landslið Íslands bæði, kvenna og karla.

Það fór vel á því að Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Herbert S. Arnarson fyrrum afreksmaður á körfuboltavellinum og nú lánastjóri Lykils undirritiðu samstarfssamninginn á æfingu kvennalandsliðsins. En kvennalandsliðið mætir Serbíu í Laugardalshöll kl. 17:00 laugardaginn 17. nóvember. Leikurinn er liður í undankeppni Eurobasket Women 2019.

Að þessu tilefni ætlar Lykill og KKÍ að gefa nokkrum heppnum aðilum miða á landsleikinn á laugardag í gegnum Facebook síðu Lykils. Við hvetjum alla til að næla sér í miða og mæta í höllina til að styðja við bakið á stelpunum.

Stelpurnar eiga einnig leik á miðvikudaginn 21. nóvember þegar þær taka á móti Bosníu. Karlalandsliðið á svo leik 29. nóvember á móti Belgíu en leikurinn er liður í undankeppni Eurobasket 2021. Hægt er að nálgast miða á TIX.is fyrir alla leikina – Allir í höllina!

Lykill mun styðja sérstaklega við Úrvalsbúðir KKÍ sem eru ætlaðar efnilegustu leikmönnum allra liða á landinu. Hvert lið útnefnir leikmenn sem fá síðar boð um að mæta í Úrvalsbúðirnar. Þetta er mikil hátíð sem gaman er að fylgjast með. Í Úrvalsbúðunum mæta strákar og stelpur sem hitta og kynnast jafnaldra sína frá öllum landshlutum betur en flest hafa þau tekist á, á vellinum með félagsliðum sínum en þarna myndast oft skemmtileg vinasambönd.

Við hjá Lykli fögnum samstarfinu við KKÍ og styðjum stolt við körfubolta á Íslandi.

Áfram Ísland!