Hundar geta verið frábærir félagar og yndisleg viðbót við fjölskyldulífið. Til eru margar tegundir sem eru oft afar ólíkar að stærð og geði, fyrir utan þann mikla mun sem getur verið á einstaklingum innan sömu tegundar. Flestir hundaeigendur þurfa, hvort heldur sem er oft eða sjaldan, að ferðast með hundinn í bíl og þá er gott að hafa nokkur öryggisatriði í huga. 

Við þurfum að gæta að öryggi hunda í bílum, rétt eins og við gætum að öryggi annarra farþega.Laus hundur í bíl skapað mikla hættu, t.d. ef viðkomandi er gjarn á að elta og gelta á bíla, slík hegðun getur á miðri Miklubrautinni truflað ökumann og skapað ekki einungis honum hættu heldur einnig öðrum ökumönnum.

Þá getur verið gott að taka einnig mið af þörfum hundsins þegar við veljum okkur nýjan bíl. Sumir hundar þurfa mikið pláss, á meðan öðrum nægir lítið. Í Sýningarsalnum okkar má finna fjölmarga bíla sem henta fullkomlega eigendum bæði smárra og stórra hunda.

Hundabúr

Hundum líður undantekningalítið vel í búrum. Það fyllir þá öryggiskennd og þeir eru síður líklegri til að gera eitthvað af sér. Það á einnig við um þegar þeir eru í bílum. Með því að venja hund á að vera í búri þegar hann er um borð í bíl, þá skaparðu ekki bara öruggari aðstæður fyrir hundinn, heldur eykur líkurnar á því að á meðan bílferð stendur að hundinum líði vel. Langflest hundabúr eru auk þess rammgerð og með því að festa það vandlega er öryggi hundsins eins tryggt og hugsast má, ef eitthvað skyldi koma fyrir.

Hundagrindur

Fyrir allra stærstu hundana eða þegar maður er með fleiri en einn hund, getur verið sniðugt að vera með grind sem lokar af farangursgeymsluna. Þá er mikilvægt að velja sterkbyggða grind sem þolir árekstur. Net eða veikbyggðar grindur sem ætlað er að koma í veg fyrir að hundurinn komist í aftursætin, gera í raun lítið til að tryggja öryggi hundsins.

Hundabílbelti

Í mörgum dýrabúðum er hægt að fá bílbelti fyrir hunda. Þá er beltinu brugðið um hundinn og það síðan tengt við bílbelti viðkomandi bifreiðar, en gætið að því að láta beltið aldrei liggja um háls hundsins, heldur þarf beltið að ná um og yfir búk hans. Þessi aðferð hefur hins vegar þann ókost að hundurinn er þá í farþegarými bílsins, með tilheyrandi óþrifnaði og mögulegri truflun. Hins vegar má fá í flestum betri gæludýraverslunum hlífar fyrir sæti og farangursgeymslur, sem óhætt er að mæla með.

Hundar og langferðalög í bíl

Þegar við ferðumst um landið með hund í bílnum getur verið gott að haga ferðatilhögun aðeins öðruvísi og taka mið af þörfum hundsins. Mörgum hundum finnst t.a.m. óþægilegt að ferðast með bílum, enda sú hreyfing sem því fylgir ekki þeim eðlileg. Því getur við ágætt að staldra við reglulega, leyfa hundinum að teygja úr sér og jafnvel vera með vatn við höndina, sérstaklega þegar heitt er í veðri. Með því að gefa hundinum reglulega tækifæri á að rétta úr sér og stíga aðeins út, þá eru mun meiri líkur á að hann sé rólegur á meðan ferðalaginu stendur. Vel valdir staðir til að stoppa á og hreyfa sig geta gert ferðina mun skemmtilegri fyrir alla ferðalanga.

Að lokum…

Hundar eru frábærir félagar en maður ætti alltaf að hafa í huga að þeir eru dýr og treysta fullkomlega á að við tryggjum öryggi þeirra. Með því að leyfa hundi t.d. að stinga höfði út um glugga á bíl sem er á 90 km hraða erum við ekki að tryggja öryggi hundsins, því lítið þarf að koma fyrir til að hundurinn kippist til og reki höfuð eða háls í gluggakarma þannig að af verði skaði. Þá er heldur engum greiði gerður með því að hafa hund lausan í bíl, enda getur stór hundur kastast til ef hemla þarf snögglega og valdið skaða á bæði öðrum farþegum sem og bílnum sjálfum.