Fleiri hjól út í umferðina

Þegar sólin hækkar á lofti og nær dregur sumardeginum fyrsta fjölgar þeim sem draga hjól fram úr geymslu og á það sérstaklega við um þá yngstu í umferðinni. Sum hver eru jafnvel að stíga í fyrsta sinn á pedala og eru algjörir byrjendur í umferðinni. Við þurfum því að hafa sérstakar gætur á okkur. 

Vorið er yndislegur tími. Þó að stundum geti verið kalt, jafnvel gert slyddu og snjókomu, þá finnur maður engu að síður að náttúran er að búa sig undir hlýnandi veður og langar sumarnætur. Við förum sjálf að huga að hinum ýmsu vorverkum, tökum bílinn í gegn og setjum sumardekkin undir. Sífellt fleiri brúka hjól sem ferðamáta á sumrin og fjölgar þeim jafnt og þétt sem nota þennan hagkvæma og umhverfisvæna fararskjóta á sumrin.

Á hjól í fyrsta sinn

Þá fjölgar einnig þeim á vorin sem eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni. Margir foreldrar fylgjast þannig með börnum sínum setjast í fyrsta sinn á hjól og aðstoða þau við að komast af stað með hjálpardekk og hjálm á sínum stað. Ábyrgð á þessum nýjustu þátttakendum í umferðinni hvílir þó ekki eingöngu á herðum foreldranna, heldur á okkur öllum. Því miður virðist það óhjákvæmilegur fylgifiskur vorsins að heyra fréttir af því að ekið hafi verið á barn, hvort heldur sem er á hjóli eða gangandi, fréttir sem ekkert foreldri vill heyra eða fá.

Ef við leggjumst öll á eitt, gætum að því að bílarnir séu reiðubúnir fyrir sumarið, og munum að gangandi og hjólandi eiga réttinn, þá tekst okkur að auka öryggi allra. Þá er gott að hafa á bakvið eyrað, að betra er að flýta sér hægt og virða hraðatakmörk í hvítvetna, einkum og sér í lagi þar sem dýrmætustu samfélagsþegnarnir eru að leik. Þannig getum við sameinast um að tryggja að allir, hvort sem þeir eru farþegar í bílnum okkar eða aðrir þátttakendur í umferðinni, stórir og smáir, komist heim heilir á höldnu.