Þó að enn sé aðeins miður mars þá færist sumarið sífellt nær, enda daginn tekið að lengja og stutt í jafndægur að vori. Þá getur verið gott að byrja að huga að vorverkunum hvað bílinn snertir og gera hann kláran fyrir sumarið. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

 1.  Dekkin
  Einn mikilvægasti þáttur bílsins eru hjólbarðarnir. Góð sumardekk geta breitt heilmiklu sem og stærð þeirra. Með því að velja rétt dekk er hægt að hafa áhrif á eldsneytiseyðslu bílsins og gott að leita ráða sérfræðinga hvað það varðar. Þá er einnig sniðugt, ef þú kýst að aka á heilsársdekkjum, að skoða dekkin vel eftir veturinn, ef þau eru tekin að slitna þá er ekki úr vegi að skipta þeim út. Eins geta misslitin dekk gefið til kynna að þú þurfir að láta jafnvægisstilla bílinn. Ekki gleyma svo að skoða varadekkið og tryggja að það sé nýtilegt, ef það kemur til þess að það springi.
 2. Bremsur
  Við mælum með því að bremsuklossar og -diskar séu skoðaðir eftir veturinn. Umferð á veturna er hægar en sumarumferðin og reynir oft meira á bremsurnar. Þá hefur frost og kuldi, svo ekki sé nú minnst á salt, ekki alltaf svo jákvæð áhrif á hemlana. Bremsuklossarnir lenda oft í miklum hitabreytingum og það getur slitið þeim hraðar en venjulega.
 3. Vorþrif
  Við mælum hjartanlega með því að bíllinn sé tekinn í gegn að vori. Okkur hættir mörgum til að treysta á bílaþvottastöðvar á veturna og þó að þær séu frábærar, þá þarf bíllinn líka stundum smá ást frá okkur í formi bóns og innandyraþrifa.
 4. Smurning
  Það getur verið ágætt að fara með bílinn á smurstöð í sumarbyrjun. Ekki bara til að lát að láta smyrja bílinn heldur einnig til að láta skoða hver staðan er á olíunni á sjálfsskiptingunni, athuga kæli- og bremsuvökva að ógleymdum stýrisvökvanum. Með því að fylgjast vel með þessum þáttum geturðu bæði komið í veg fyrir óþarfa slit sem og geta reyndir vélvirkjar komið auga á upprennandi vandamál og komið þannig í veg fyrir þau áður þau verða virkilega kostnaðarsöm.
 5. Rafgeymirinn
  Á veturna getur virkilega reynt á rafgeyminn. Það er því ekki úr vegi að fylgjast vel með honum, tryggja að það sé nægur vökvi á honum sem og að hann leki ekki.
 6. Rúðuþurrkurnar
  Vinnukonurnar slitna, rétt eins og allt gúmmí, og á veturna mæðir verulega á þeim. Það er hægt að lengja líftíma þeirra með því að þrífa þær reglulega og þá jafnvel með X. Hins vegar er sniðugt að láta skipta reglulega um rúðuþurrkur því útsýnið úr bílnum er algjört lykilatriði og getur verið einkar truflandi þegar rúðuþurrkurnar skilja eftir sig rákir á miðri rúðu.
 7. Smáatriðin mörgu
  Þegar við erum á annað borð byrjuð að taka bílinn í gegn af hverju ekki að klára það? Það þarf t.d. að skoða allar perur og jafnvel þurrka móðu innan af glerkúplum ljósa. Þá getur verið svona ýmislegt smálegt sem þarnast aðhlynningar, t.d. ef stuðari eða kantur hefur losnað lítillega við að nuddast utan í snjóskafl eða ef númerplatan situr ekki nægilega föst.

Munum að hugsa vel um bílinn okkar, þá hugsar hann vel um okkur. Þetta er þannig ekki bara spurning um eðlilegt viðhald heldur líka um öryggi okkar og farþega okkar.