Fjármögnunarleiga

Fjármögnunarleiga hentar til fjármögnunar á vélum og tækjum til atvinnurekstrar, en þó best þeim sem vilja nýta sér hraðari gjaldfærslu á leigugreiðslum. Þar sem um leigusamning er að ræða, geta fyrirtæki sleppt eignfærslu leigumunar og gjaldfært allar greiðslur af samningnum. Getur þetta form því hentað mjög vel þeim sem ekki vilja eignast tæki sem notuð eru til rekstrar.

Fyrirtæki velja tækin og Lykill staðgreiðir

Þú velur það tæki sem hentar þínum rekstri og Lykill staðgreiðir kaupverð þess til seljanda og leigir þér. Lykill er því eigandi tækisins en fyrirtæki eða rekstraraðili er leigutaki og hefur fullan umráðarétt yfir því. Hægt er að fjármagna ýmsar tegundir véla og tækja sem við bjóðum fjármögnun á allt að 80% af kaupverði.

Samningstími fjármögnunarleigu

Grunnleigutími samnings er yfirleitt 36-60 mánuðir. Þó er ákvörðun um lengd samningstíma hverju sinni háð aldri og eðli leigumunar. Við lok grunnleigutíma tekur síðan við ótímabundin framhaldsleiga. Á framhaldsleigutímabili átt þú þess einnig kost að skila leigumun til okkar og fellur framhaldsleiga þá niður. Viljir þú kaupa leigumuninn af okkur er hægt að óska eftir því með skriflegum hætti og er þá skoðað og metið af viðskiptastjórum okkar.

Val um gjaldmiðla

Samningar um fjármögnunarleigu geta verið í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Fyrirtæki geta valið myntir sem henta þeirra rekstri.

Sveigjanlegar greiðslur

Hægt er að stilla greiðslum upp í samræmi við tekjustreymi í þínum rekstri. Þannig er t.d. hægt að hafa greiðslur hærri á þeim árstíðum sem tekjur eru háar, en lægri þegar tekjur dragast saman.

Bókhaldsleg meðferð og virðisaukaskattur

Virðisaukaskattur leggst á leigugreiðslur og bókhaldsleg meðferð er á ábyrgð leigutaka. Þú vátryggir tækið í þínu nafni og greiðir öll lögbundin gjöld af því, eins og t.d. bifreiðagjöld og þungaskatt, ásamt öllum kostnaði vegna viðgerða eða skemmda.

Nauðsynleg gögn með umsókn

Nauðsynleg gögn með umsókn um fjármögnunarleigu eru:
  • Upplýsingar um fjárhagsstöðu leigutaka (ársreikningur eða skattframtal).
  • Upplýsingar um tækið og kaupverð þess.
  • Upplýsingar um fjárþörf og óskir um tilhögun greiðslna.
Allar frekari upplýsingar veita viðskiptastjórar Lykils í síma 540 1700 með tölvupósti lykill@lykill.is og á skrifstofu okkar að Síðumúla 24.