Þegar það er kalt í veðri getur maður stundum lent í því að dyralæsingarnar á bílnum standa á sér. Þá er gott að kunna ráð til að komast inn í frosinn bíl. Það er einmitt fátt skemmtilegra en koma út eldsnemma á ísköldum vetrarmorgni og uppgötva að það er sama hve maður hamast á fjarstýringunni eða reynir að snúa lyklinum í skránni, það gerist bara ekki neitt, bíllinn opnast ekki og manni verður sífellt kaldara. Málið er, að læsingarnar, hvort sem þær eru rafstýrðar eða ekki, geta frosið og staðið á sér og þá eru góð ráð dýr. Hér eru nokkur góð ráð.

Hvað áttu ekki að gera?

Hér áður fyrr sást stundum til einstaklinga sem höfðu í flýti (og líklega smá hugsunarleysi) beygt sig niður, lagt varirnar að ískaldri hurðinni og ætlað að blása inn í skránna. Nokkrum sinnum endaði það með álíka hætti og þegar maður var að sleikja frost af ljósastaurum hérna í den. Það er nefnilega ekkert sérstaklega sniðugt að blása inn í skrána, því andardráttur okkar er rakur og gerir þannig lítið annað en að framlengja vandamálið og gera það jafnvel verra.

Þá er ekki sniðugt að grípa til WD-40 og sprauta af krafti inn í skrár og læsingar. WD-40 er frábært til að smyrja staði sem þurfa smurningar við, en langoftast er vandamálið við stirðar eða frosnar læsingar raki inni í læsingunni. Auk þess eru sumir hlutar læsingarinnar úr gúmmíi eða öðrum álíka gerviefnum og olían í WD-40 getur haft neikvæð áhrif á þá hluti og jafnvel gert þá brothættari.

Eins er ekki endilega besta hugmyndin að hita lykilinn með kveikjara. Inni í læsingum er, eins og áður segir, hlutar úr plasti og gúmmíi og of heitur lykill getur þannig skemmt læsinguna. Ef þú notar þessa aðferð er best að hita lykilinn lítillega, stinga honum í skránna, bíða í smástund og taka síðan út aftur og endurtaka þetta nokkrum sinnum.

Þá er ekki góð hugmynd að sækja sjóðandi heitt vatn og hella yfir hurðina. Gallinn við þá hugmynd er sá, að skyndileg hitabreytingin getur haft slæm áhrif á hurðina, fyrir utan að vatnið mun líklega frjósa aftur og þannig er ekki búið að leysa vandamálið.

Hvað áttu að gera?

Sniðugasta ráðið er að eiga íseyði fyrir læsingar. Slík sprey er hægt að fá á flestum bensínstöðvum og kosta lítið. Þar er oftast um að ræða ethanól-jarðolíu sem þú sprautar inn í læsinguna. Eftir smá stund ætti íseyðirinn að hafa eytt ísingunni og það án þess að skemma nokkuð læsinguna.

Þá getur eins verið klókt að vera með nokkrar fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er til dæmis sniðugt að sprauta alla gúmmíkanta, því stundum standa dyr á sér vegna þess að raki hefur frosið á gúmmíinu. Eins er gott að láta smyrja bæði dyr og læsingar reglulega.