Það er yndislegt að aka um íslenskar sveitir á sumrin. Túnin græn, kindur og beljur á beit og falleg fjallasýn. En þegar heim er komið blasir stundum fremur óskemmtileg sjón við manni. Grillið á bílnum, framstuðarinn og hliðarspeglar oftar en ekki þaktir hræjum af flugum og fiðrildum. Þá er lítið annað að gera en að þrífa bílinn. Svona þrífur þú flugur af bílum.


lykillflugur1

Það eru til fjölmargar aðferðir og ýmis hjálparefni við að losna við þennan hvimleiða en óhjákvæmilega fylgikvilla þess að keyra um landið á sumrin, t.a.m. er hægt að finna flugnahreinsara á flestum bensínstöðvum. Best er að ganga sem fyrst í þetta verk eftir að heim er komið, því sólin getur ýtt undir að ýmis efnasambönd í hræjunum harðni og skemmi lakkið á bílnum ef það er dregið úr hófi fram að hreinsa dauðu skordýrin burt.

lykillwd40

Hreinsiefni

Til að byrja með er gott að úða hreinsiefni yfir svæðið. Til að mynda er víða mælt með að nota WD-40. Hægt er að fá fjölmörg góð hreinsiefni á langflestum betri bensínstöðvum. Ekki er sniðugt að nota þvottaefni sem ætluð eru til annarra nota, t.d. uppþvottalög. Gallinn við slík efni er að þau geta haft slæm áhrif á bón- og lakkhúð bílsins. Úðið þunnu lagi yfir svæðið. Munið ávallt að lesa vel og fylgja vandlega öllum leiðbeiningum á umbúðum hreinsiefnanna. Eins er gott að prófa fyrst hreinsiefnið á litlum fleti. 

lykillsapa

Þrífa með bílasápu

Þá er að blanda saman vatni og bílasápu. Best er að nota microfiber klút eða góðan svamp. Næst þrífum við svæðið með flugunum vel. Það getur verið gott að nota fingurna á suma bletti, til að losa aðeins um þá. Ekki nota nein skörp áhöld við þessa vinnu, enda getur slíkt skilið eftir sig ljótar rispur í lakkinu.

lykillsprauta

Skola með vatni

Næst er að ná í garðslönguna og skola vel af svæðinu. Ekki er ráðlegt að nota mjög heitt vatn og í raun er íslenska kalda vatnið langbesti valkosturinn.

file

Bóna á ný

Að lokum er sniðugt að bera aftur bón yfir lökkuð svæði, vegna þess að bæði sápan sem og efnasamböndin í dauðu skordýrunum geta leyst upp bónið.

Besta leiðin til að ganga úr skugga um að þessi þvottur skili góðum árangri er að tryggja að bílinn sé reglulega bónaður. Bónhúðin ver lakkið og auðveldar okkur til muna að eiga við skordýraleifar, fugladrit og þess háttar.