Það er mikilvægt að bóna bílinn reglulega upp á að verja hann fyrir ágangi veðurs og vinda, hvort sem hann er gamall eða nýrunninn út úr Sýningarsalnum okkar. Með hjálp bóns og þéttiefna er hægt að viðhalda góðum lit og glæsileika bílsins og er óhætt að fullyrða að fátt tekur fram vel bónuðum bíl á götunum. Það er þó ekki sama hvernig við bónum bílinn okkar og gott að hafa nokkur atriði í huga.

Hvernig bón hentar best?

Fyrir nokkrum ár þótti eðlilegt og einfaldlega hluti af því að eiga bíl að draga fram bóndollu að loknum þvotti og nudda bóni á bílinn til að kalla aftur fram gljáa og endurbæta bónvörn bílsins. Hins vegar hefur bæði bíllakk tekið miklum framförum og breytingar á lífstíl orðið til þess að það sem áður taldist góðir siðir hefur gefið eftir og sífellt fleiri bílaeigendur heimsækja reglulega bílaþvottastöðvar á borð við Löður.

Til eru nokkrar ólíkar gerðir af bílabóni:

  • Fljótandi bón
  • Bónmassi
  • Sprautubón

Það hvers lags bón þú kýst að nota er í dag veltur meira á hvað hentar þér best. Framleiðsla bóns hefur tekið svo miklum framförum á síðustu árum að það er ekki mikill, ef nokkur, gæðamunur á milli þessara gerða. Hér áður fyrr var gamli, góði bónmassinn langbesta bónið og þar af leiðir besta vörnin fyrir bílinn, en í dag er þessu ekki farið svo. Þannig getur val á bóntegund haft mun meira að segja um gæði bónsins en hverrar gerðar það er.

Góður þvottur er góð byrjun…

Það er afar góð regla að þvo bílinn vandlega áður en bón er borið á bílinn. Það er þannig ekki nóg að skola bara af honum, heldur þarf að ná öllum óhreinindum af öllum lökkuðum fletum. Hér á Íslandi þarf að huga vel að því að hreinsa salt og tjöru, enda geta þessi efni valdið skemmdum á bílnum og sérstaklega á lakkhúðinni ef ekkert er að gert. Á veturna er því sniðugt að nota tjöruhreinsi og góða sápu.

Eins getur verið sniðugt að leira bílinn tvisvar á ári, bæði að hausti og vori. Oft sitja smá óhreinindi föst í bónhúðinni sem erfitt er að losna við og þá er gott að að nota hreinsileir, sem er í raun lítið annað en tilbúið gerviefni. Þá er leirinn notaður til að losa óhreindin þannig að lakkið verði enn fallegra en áður.

…og svo bónum við!

Sama hvaða gerð af bóni þú velur þá gilda sömu leiðbeiningar. Með tilkomu nýrra og betra bóna þá hefur þörfin fyrir þykkt lag og endalaust puð við að nudda bónið niður minnkað. Þunnt lag þornar fyrr og er auðveldara viðureignar. Ef lakkið á bílnum er orðið matt og slitið er ráðlegt að nota lakkhreinsi áður en bónað er. Lakkhreinsirinn frískar upp oxíderað (matt) lakk.

  • Gott er að bóna ekki bílinn í sterku sólskini og betra að bóna í skugga.
  • Á flestum umbúðum bóna eru leiðbeiningar um með hvaða hætti er best að bera viðkomandi bón á bílinn.
  • Gott er að vinna ekki með mikið meira en hálfan fermetra hverju sinni.
  • Ekki nota of mikið bón hverju sinni, bæði er það óþarfi sem og óþarfa eyðsla á bóni.

Að loknu bóni ætti bíllinn að vera spegilgljáandi fínn og hreinn. Til að ná fram þessum vá-áhrifum getur verið sniðugt að nota plast- og gúmmíhreinsiefni. Stundum situr bón eftir á erfiðum stöðum, t.d. í kringum bílamerkið fremst á húddinu, en það getur verið sniðugt að nota tannbursta til að ná inn á þá staði.

Wax on, wax off!

Með því að leira og bóna bílinn tvisvar á ári getur verið meira en nóg að fara með bílinn í Löður með reglulegu millibili til að viðhalda góðri bónvörn. Hvort sem þú notast við þvottastöðvar eða ekki er ágæt regla að bóna bílinn ekki sjaldnar en með þriggja mánaða fresti og þvo hann enn oftar, einkum á veturna. Og það getur margborgað sig að hugsa vel um bílinn, því oftar en ekki dæmum við bíla af útlitinu.