Það styttist í veturinn með allri sinni gleði, snjó, slabbi, salti, hálku og tilheyrandi. Fyrir okkur bílaeigendur þýðir þetta líka að við þurfum að búa bílinn undir veturinn. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga ef þú vilt tryggja að bílinn þinn sé í góðu standi þegar það tekur að kólna og snjóa. 

Ljósabúnaður

Eins og allir vita þá njótum við ekki dagsbirtu í sama magni á veturna og á sumrin. Ljós og ljósabúnaður bíla verður því að vera í toppstandi og tryggja þarf að ljósin skíni skært. Það getur verið ágæt regla að láta skipta um ljósaperur að hausti, t.d. þegar farið er með bílinn í smurningu. Eins ef framljósin eru tekin að gulna eða orðin móðukennd, gæti verið ráð að annað hvort láta skipta um framljós eða athuga hvort hægt sé að hreinsa ljósin þannig að birtan frá þeim sé sem skærust.

Rafgeymir

Það reynir töluvert meira á rafgeyminn þegar það er kalt en þegar hlýtt er í veðri. Fyrir vikið er meiri hætta á að rafgeymar sem eru ekki upp á sitt besta bili. Láttu því mæla strauminn á rafgeyminum fyrir veturinn, það er fátt leiðinlegra en að sitja í hríð á miðju bílastæði Smáralindarinnar og reyna koma bíl með ónýtan rafgeymi í gang. Ef rafgeymirinn er tekinn að gefa sig, þá er mikilvægt að skipta um hann fyrr en síðar.

Frostlögur

Það ætti nú varla að þurfa að minna nokkurn íslenskan ökumann á mikilvægi frostlögurs, en þó heyrir maður af og til af bílum sem hafa farið illa út úr frosti. Þetta er, blessunarlega, eitt af þeim atriðum sem flestar smurstöðvar skoða þegar þú mætir með bílinn í smurningu, en allur er varinn góður. Þess vegna er ekkert að því að kanna hvort það sé nægur frostlögur á bílnum, sem og ganga úr skugga um að ekki leki nein staðar úr bílnum, þannig að ekki sé hætta á að þegar frysta tekur að þá sé ekki lengur frostlögur á bílnum. Margir bifvélavirkjar mæla með því að maður blandi frostlegi til helminga við vatn, því blandan frýs þá við lægra hitastig en frostlögur einn og sér.

Eldsneyti og rúðupiss

Eldsneyti og rúðupiss eiga ekki margt sameiginlegt, annað en að vera í vökvaformi og geymt í tönkum í bílnum. Á veturna er hins vegar mikilvægt að muna, að tryggja að tankarnir séu eins oft fullir og mögulegt er. Ástæðan er m.a. sú, að þú vilt koma í veg fyrir að raki safnist fyrir innan á eldsneytistanknum og frjósi jafnvel í eldsneytisdælunni, sem getur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Hvað rúðupissið varðar, þá ættu allir íslenskir ökumenn að vita að það er líklega einn mikilvægasti þátturinn í akstri á veturna. Bíll sem er ekki vel búinn rúðupissi og góðum rúðuþurrkum er ekki á vetur setjandi, svo einfalt er það, enda safnast skítur, salt, sandur og drulla svo hratt á framrúðuna þegar tekur að snjóa, að án rúðupissins og þurrkanna myndum við fljótt hætta að sjá út.

Dekk

Undanfarin ár hefur verið mikil áhersla lögð á að ökumenn á höfuðborgarsvæðinu setji ekki nagladekk undir bílinn, sökum mengunar og sliti sem þau valda. Það er undir hverjum og einum ökumanni komið hvers kyns vetrardekk hann kýs að nota, enda berum við ábyrgð á bílnum okkar. Seint verður ofklifað á mikilvægi góðra dekkja, sérstaklega á veturna. Þú þekkir best þær aðstæður sem þú ekur í, ef þú ekur sjaldan, ef eitthvað, út fyrir höfuðborgarsvæðið á veturna, þá er nauðsyn negldra vetrardekkja kannski ekki svo mikil. Ef þú ekur mikið um t.d. sveitir Húnavatnssýslna þá horfir málið öðruvísi við.

Þá getur líka verið gott að fylgjast með þrýstingnum í dekkjunum. Margir nýrri bílar eru með skynjara og láta vita þegar þrýstingur fellur í dekkjunum, en ágæt þumalfingursregla er, að þrýstingurinn fellur um leið og það kólnar í veðri. Ef þú ekur um með lágan loftþrýsting í dekkjunum þá slíturðu þeim fyrr og það getur valdið tjóni, t.d. ef það slitnar á milli þræða. Auk þess þá bregst bíllinn hægar við sem getur orðið okkur til trafala og skapað hættu.

Að lokum…

Á Íslandi er allra veðra von, einkum og sér í lagi á veturna. Það er því ekki slæm hugmynd að láta skoða miðstöðina og tryggja að hún virki sem skyldi, ganga úr skugga um að það séu vettlingar og húfa í bílnum, sem og bílahleðslutæki fyrir síma og þess háttar. Jafnvel að kaupa poka af kattasandi og eiga í skottinu ásamt samanbrjótanlegri skóflu og að sjálfsögðu fyrstu hjálpar kassa. Maður veit aldrei hvenær maður lendir í einhverju óhappi og þá er betra að eiga þessa hluti í bílnum.