Að draga ferðavagn

Þeim fjölgar hratt sem aka um þjóðvegi landsins með hvers kyns ferðavagna í eftirdragi. Hvort sem um er að ræða hjólhýsi, fellihýsi eða tjaldvagn, þá skiptir máli að kunna að aka með ferðavagn. Það er nefnilega ekki nóg að krækja græjuna aftur í bílinn og halda síðan af stað. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. 

Þyngd ferðavagns

Skráningarskírteini bíls segir til um hvers mikla þyngd hann getur dregið. Ferðavagnar eru skráningarskyldir og á skráningarskírteinum þeirra kemur fram þyngd þeirra. Eflaust kannast margir við að sjá stöku bíl á þjóðvegunum með alltof stórt fellihýsi í eftirdragi. Slíkt getur skapað stórhættu í umferðinni. Þá er líka gott að hafa á bakvið eyrað að uppgefin þyngd ferðavagna er án alls þess búnaðar sem er um borð í vögnunum. Þess vegna er skynsamlegra að vera með ferðavagn sem bíllinn á auðvelt með að draga sem og þú hefur engu að síður rými til að nýta geymslupláss vagnsins.

Hafðu þyngdarpunktinn réttann

Þá er einnig gott að muna að raða farangri og búnaði þannig að þyngdarpunktur vagnsins sem fyrir miðju en gott er að miða við hjól ferðavagnsins, og þá hlaða frekar þyngd 10-20 cm fyrir framan miðju. Þannig fylgir ferðavagninn best hreyfingum bílsins. Þá er líka sniðugt að hafa bakvið eyrað að þyngd ferðavagnsins sé rétt stillt af og leiti að dráttabeislinu en að hún hvíli á afturhluta vagnsins og því þarf að stilla hæða dráttabeislisins með þetta í huga. Ef þér finnst bíllinn haga sér undarlega í akstri með ferðavagn, þá er afar mikilvægt að stöðva bílinn. Það getur verið hættulegt að aka með rangt hlaðinn ferðavagn og þá betra að nema staðar og endurraða farangri í vagninn.

Passaðu útsýnið

Þegar ekið er með ferðavagn sem skyggir á útsýni úr baksýnisspegli þá þarf að vera með spegla á framlengdum örmum. Þá er líka gott að hlaða ekki í farangursgeymsluna með þeim hætti að það skyggir á útsýni aftur úr bílnum, því við þurfum líka að fylgjast með ferðavagninum sjálfum. Á það sérstaklega við þegar við erum á ferð á dögum þar sem vind hreyfir meira en góðu hófi gegnir (eins og hann á vana til að gera hérlendis).

Að aka með ferðavagn

Það er ekki sjálfgefið að kunna að aka með ferðavagn. Það tekur tíma að læra það og maður skyldi ekki ætla að það sé enginn munur á að slíkum akstri annars vegar og hefðbundnum hins vegar. Við þurfum að gæta að því að þyngd bílsins auk ferðavagnsins er meiri og því þurfum við meiri hemlunarvegalengd. Þess vegna er mikilvægt að tryggja að gott bil sé á milli bíla annars vegar og hins vegar að fara ekki yfir leyfilegan hámarkshraða, þá er mikilvægt að taka mið af aðstæðum hverju sinni. Góð þumalfingursregla er að þegar maður er með ferðavagn í eftirdragi við bestu aðstæður að aka örlítið undir leyfðum hámarkshraða og taka þannig sérstakt tillit til þeirra sem ekki eru með ferðavagn og geta þannig komist hraðar yfir. Okkur liggur jú ekki lífið á.

Gættu að vél og sjálfskiptingu

Aukin þyngd getur líka haft áhrif á vél bílsins og eflaust kannast margir við að taka fram úr bíl með stóran ferðavagn í eftirdragi sem fer löturhægt upp bratta brekku. Vandamálið er, að á geta vélar bíla ofhitnað við að draga miklar þyngdir og þá sérstaklega upp brekkur. Við þurfum því að haga akstrinum eftir aðstæðum, eins og áður segir, og þannig getur hjálpað að nota lægri gíra til að létta álagi af vélinni. Þegar um sjálfskipta bíla er að ræða er bæði hægt að taka overdrive’ið af, sem og festa skiptinguna í einhverjum lægri gíranna, t.d. á þetta vel við í Hvalfjarðargöngunum. Kynntu þér vel leiðbeiningar framleiðanda bílsins sem þú ekur um bæði hámarks þyngd sem bíllinn má draga og hvernig haga eigi akstri með aftanívagn.

Passaðu þig þegar þú beygir

Að lokum er nauðsynlegt að muna, að bíll með ferðavagn þarf stærri beygjuradíus en bíll án ferðavagns. Það jafnast á við list að ná góðum tökum á því að bakka með ferðavagn og snúa þeim, eflaust margir sem hafa lent í því að láta bílinn og ferðavagninn falla næstum saman eins og vasahníf. Það eru til ýmis ráð en líklega það eina og besta ráðið sem hægt er að gefa þeim sem eru að feta sín fyrstu skref í þessu, er að gefa sér nægan tíma, fara hægt yfir og brosa að öllu saman. Það er sumar og óþarfi að láta ekki alveg fullkomna leggingu á ferðavagninum eyðileggja góða skapið.

Góða ferð!